148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[18:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er á nefndarálitinu sem nefndarmaður í samgöngunefnd en vil þó benda á eitt atriði sem mér finnst vanta í breytingartillöguna og er varðandi netlög, sem mér eru sérstaklega hugleikin. Ég hélt að samkomulag hefði verið um að rætt yrði um ytri mörk netlaga, þ.e. að viðmiðunarlínan landmegin sé frá ytri mörkum netlaga. Í breytingartillögunni er einungis sagt: „svæði frá netlögum að ytri mörkum efnahagslögsögunnar.“ Þetta markar raunverulega skipulagssvæðið, frá netlögum og út í efnahagslögsöguna. Allt í lagi, landmegin er þetta auðvitað ekki skýrt. Netlög eru svæði sem er mislangt en yfirleitt um 115 metrar og það verður að vera skýrt að það sé frá ytri mörkum en ekki innri mörkum. Ég tel að við 3. umr. þurfi að laga það orðalag.