148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[18:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vildi við þetta tækifæri hrósa hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir það hvernig vinna að málinu hefur farið fram. Þetta er á margan hátt flókið mál og ýmis álitamál sem hafa komið upp sem þurft hefur að skoða sérstaklega með þar til bærum sérfræðingum, með þeim sem þekkja best til á sínu svæði, og samræma það svo allt saman, þær upplýsingar, og vinna úr því heilsteypt frumvarp, sem mér sýnist hafa tekist ágætlega. Þá er rétt að nota árangurinn af þeirri vinnu sem hvatningu til að menn nálgist hlutina lausnamiðað í öðrum málum líka, ég tala nú ekki um að menn fylgi eftir því sem þegar hefur verið samið um. Vinnan að þessu máli er á margan hátt til fyrirmyndar og ætti að vera okkur hvatning í öðrum málum líka.