148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

skipulag haf- og strandsvæða.

425. mál
[18:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur verið býsna lengi í umræðunni, í það minnsta á Íslandi, hvernig skipulagsmálum þegar kemur að haf- og strandsvæðum er háttað. Við höfum mörg hver átt fundi með sveitarfélögum víða um land þar sem áhyggjur þeirra hafa komið fram og eins vilji þeirra til að hafa meira um þetta að segja. Eftir því sem mér skilst hefur þeim áhyggjum að miklu eða flestu leyti verið mætt sem hafa komið fram af þeirra hálfu varðandi þær breytingar sem eru gerðar á þessu frumvarpi, eða í frumvarpinu í það minnsta. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni.

Það er líka gaman að segja frá því að fyrir vestan hafa menn verið að reyna að sérhæfa sig í því að kenna þennan þátt, sem er mjög uppbyggilegt.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að samþykkja þetta mál hér en sjálfsagt, eins og með margt annað sem er samþykkt á lokametrunum, þarf að endurskoða eitt og annað þegar þing kemur aftur saman.