148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[18:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þessu máli og sambærilegum höfum við Framsóknarmenn barist fyrir í mörg ár án árangurs þangað til 8. maí þegar það var samþykkt hérna í þingsalnum. Í stjórnarsáttmálanum tölum við um að skoða það að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Í peningastefnunefndinni sem kom hér um daginn var lagt til að það yrði gert að vel og vandlega athuguðu máli. Við styðjum fagleg vinnubrögð sem styðja við mál smátt og smátt. Það tekur tíma að vinna undirstöðu undir það sem þarf að gera. Fyrir nokkrum árum barðist ASÍ gegn þessu máli, verkalýðshreyfingin. Fleiri eru komnir á þá skoðun að þetta sé skynsamlegt. Við viljum vinna faglega og munum gera það. Í haust mun væntanlega koma fram frumvarp, eða næsta vetur, um breytingar á Seðlabanka og m.a. þessu máli, eftir að það er búið að fara í gegnum faglega umfjöllun í nefnd. Alveg eins og við (Forseti hringir.) samþykktum öll hér í þessum sal. Við Framsóknarmenn og ríkisstjórnin viljum fagmennsku og minni trumpisma.