148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[19:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um tillögu sem er í beinu röklegu samhengi við það sem Alþingi hefur áður samþykkt og samþykkti hér 8. maí. Það var einróma samþykki um að starfshópur tæki þetta til sérstakrar skoðunar, bæði hvað varðar verðtryggðar fjárskuldbindingar, en líka í samhengi við þá niðurstöðu sem nefnd um endurskoðun peningastefnu skilaði af sér á dögunum þar sem bent er á að sú staðreynd að hafa húsnæðisverð inni í neysluvísitölu geti skapað skörun milli markmiða um verðstöðugleika og fjármálastöðugleika.

Málið er því í ferli þar sem er verið að fara yfir það af okkar færustu sérfræðingum um hvernig við getum náð góðri lendingu þannig að við tryggjum í senn stöðugleika og fáum líka úr því skorið hvert við viljum stefna. Við vitum líka að ágreiningur er um hvernig húsnæðisverð er reiknað inn í vísitölu. Það er til að mynda gert með öðrum hætti hér á Íslandi en í Svíþjóð. Það er líka inni í greiðsluvísitölu í Kanada, því að hér er sagt að við séum í einhverri einstæðri stöðu varðandi það að húsnæðisliðurinn sé inni í vísitölu. Ég held einmitt að þessi umræða sýni það gjörla sem hér (Forseti hringir.) hefur átt sér stað að það er mjög rökrétt að segja já við þessari tillögu og vinna þetta mál betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)