148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[19:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er mikið framfaraskref ef okkur, þingheimi, tekst að samþykkja þessa breytingu á barnalögum sem varðar grundvallarrétt barns til þess að þekkja uppruna sinn. Ég er komin hingað til að þakka velferðarnefnd fyrir það góða starf sem þar var unnið. Ég vil einnig þakka kærlega flutningsmanni úr nefndinni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir einkar gott samstarf, en hann hefur áður flutt þetta sama mál á þinginu. Það má segja að hjörtu okkar hafi slegið í takt í þessu máli. Það er nú ekki á hverjum degi sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn leggjast á eitt í málum en það gerðist í þessu máli. Ég verð að segja að ef okkur tekst að samþykkja málið gleðst ég innilega. Ég veit að þetta skiptir mjög miklu máli fyrir börn og líka fyrir þá feður sem áður hafa ekki komist að í faðernismálum.