148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

barnalög.

238. mál
[19:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef stutt að þetta mál gengi sinn veg í þinginu og studdi það eftir 2. umr. Hérna er um að ræða alveg gríðarlega viðkvæmt fjölskyldumálefni sem kalla á að það sé skoðað frá öllum hliðum. Ég sakna þess í þinglegri meðferð þessa máls að ekki hafi tekist að fá umsagnir frá fleiri aðilum en nefndir eru í nefndaráliti meiri hlutans. Það sem ég hef mestar áhyggjur af í tengslum við þetta mál eru tilefnislaus mál, þ.e. þegar menn telja sig ranglega eiga skyldleika við börn og setja af stað, ranglega, mál sem setja fjölskyldulíf í algert uppnám. (Forseti hringir.)

Ég hef ekki séð með nægilega tryggum hætti að á slíkum vanköntum þessa máls sé tekið. Ég hef sömuleiðis saknað þess, bæði í nefndaráliti og umræðum um þetta mál, að þessi hlið málsins, hin hliðin, sé tekin til nægilega mikillar umræðu. Að svo stöddu get ég þess vegna ekki fengið mig til að styðja málið.