148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[19:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Þegar Ísland semur við önnur ríki eða sambönd um mikilvæga samninga, alþjóðasamninga, eru heildarhagsmunir þjóðarinnar hafðir uppi. Vegið var og metið hvaða hagsmunir skiptu gríðarlega miklu máli og hverjir síður í ákveðnu samhengi. Það er gert víða, í raforkumálum, landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum o.s.frv. Þegar gerðir voru samningar á sínum tíma sögðu menn að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að hafa greiðan aðgang m.a. að Evrópusambandinu fyrir íslenskar sjávarafurðir og öðru var slakað til, þar á meðal hluta af landbúnaðarmálum.

Síðan skulum við fara um tvö ár aftur í tímann. Ég hlusta á þingmenn tala um bix sem voru hér þá, en þá var gert samkomulag. Minnst var á kosningar. Ég sé alveg í hvaða farveg Sjálfstæðisflokkurinn er að fara hér. Getur verið að hann hafi fengið bakþanka yfir þeim búvörusamningi sem þá var gerður þegar ekkert tillit var tekið til neytenda, þegar þeir sáu fram á að auka þyrfti hlutverk neytenda og sjónarmið þeirra samhliða því að styrkja bændur, sem enginn er á móti og allir vilja halda áfram að gera? Það var auðvitað þess vegna sem þáverandi meiri hluti atvinnuveganefndar samþykkti málið með þeim hætti að hleypa inn þessu viðbótartonni varðandi sérosta, það var skýrt allan tímann, ásamt mótvægisaðgerðum. Hverjar eru mótvægisaðgerðirnar? Auðvitað var ýmsum málum ýtt úr vör, en hverjar voru mótvægisaðgerðirnar? Það var heill búvörusamningur upp á 16 milljarða. Skipuð var endurskoðunarnefnd skipuð með þeim búvörusamningi sem ég fór af stað með sem ráðherra og endurskipaði í mikilli óþökk sumra Sjálfstæðismanna, Framsóknarmanna, en kom að sjónarmiðum neytenda í því samhengi.

Það var alveg skýrt. Farið var að hluta til í þær mótvægisaðgerðir. En við vitum líka að utanríkisráðuneytið er með utanríkisviðskiptin, eins og margoft hefur komið fram hér. Ég get ekki að því gert þó að utanríkisráðherra hafi verið meira upptekinn af Brexit en að sinna hagsmunum bænda. Þetta verða bara Sjálfstæðismenn að eiga við sitt heimafólk en ekki benda á eitthvað annað.

Það er alveg skýrt, mín stefna er alveg skýr. Ég trúi á frjálsan opinn markað til þess að styðja m.a. innlenda framleiðslu. Við sáum það þegar grænmetisbændur stóðu frammi fyrir því þegar opnað var fyrir frjálsan markað á sínum tíma, með auknum stuðningi við grænmetisbændur, að hlutdeild íslenskra grænmetisbænda jókst úr 80% í 90% af því að íslenskar landbúnaðarafurðir, íslenskt grænmeti þar á meðal, er í mjög sterkri samkeppnisstöðu þegar það er borið saman við útlenda vöru. Við eigum ekki að vera hrædd við það — fyrir utan alla þá nýsköpun sem við höfum séð á síðustu misserum í landbúnaðargeiranum, af því að það koma áhrif að utan, af því að við erum með í samstarfi við umheiminn. Þess vegna þróast rannsóknir áfram, nýsköpun, frábær starfsemi, sem leiðir til þess að við erum með fjölbreyttara íslenskt ostaúrval en nokkru sinni, af því að það vill svo til að Íslendingar fara utan og kynna sér erlendar afurðir. Svo koma þeir heim og eru þakklátir fyrir að geta gengið að svipuðum eða sambærilegum vörum hér heima af því að þær eru íslenskar. Við eigum að treysta okkur í það.

En að fara í slíka útúrsnúninga sem þetta mál er, að reyna að draga út nokkur tonn af því að þetta eru ekki sérostar, af því að þetta er að hluta til Edam-ostur sem er kannski alveg eins og Gotti eða hvað það er — við eigum bara að taka allan pakkann.

Þess vegna er ég mótfallin breytingum á þessu frumvarpi sem meiri hluti atvinnuveganefndar vill gera. Ég hefði viljað að við myndum innleiða það strax, að utanríkisráðuneytið færi strax í formlegar viðræður við Bretland um þetta mál, að sjálfsögðu með stuðningi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. landbúnaðarráðherra í hliðarsal myndi styðja það.

Svo segir mér hugur um að Sjálfstæðismenn séu nú enn og aftur komnir með bakþanka þegar stuðla á að opnun markaða, frelsi, treysta markaðnum og auka neytendavernd, af því að nú á að kalla málið inn til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umr.

Það skyldi þó ekki vera að það eigi að seinka málinu í fjögur ár, að dempa það. Við skulum ekki gleyma því að skrifað var undir þessa samninga 2016. Við erum búin að hafa tvö ár í aðlögun. Við erum búin að hafa þessi tvö ár, markaðurinn hér heima er í aðlögun og fólk var meðvitað um að hann myndi opnast. Sú aðlögun er löngu farin af stað. En ég óttast, og það á betur við nú en nokkru sinni áður, að Framsóknarmenn allra landa hafi nú sameinast enn og aftur í þessu máli.

Þess vegna óttast ég að breytingar verði gerðar á milli 2. og 3. umr. í þessu máli í þá veru. Og hverjir eru látnir sitja eftir með efasemdir um málið? Jú, neytendur enn og aftur.

Treystum íslenskum neytendum, (Forseti hringir.) treystum íslenskum bændum til þess að standa fyrir og standa í þeirri samkeppni, þessari örlitlu, oggulitlu (Forseti hringir.) samkeppni sem er verið að bjóða upp á. Hún er ekki mikil. Ekki er verið að fara fram á mikið. Bara oggulítið. (Forseti hringir.) En Framsóknarmenn hér í salnum segja nei. Málið skal stöðvað. Það er miður, herra forseti.