148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[19:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir hvert einasta orð sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var að segja, þetta er algjörlega hárrétt og kannski rétt að athuga að framleiðsla á ostum á Íslandi skiptir þúsundum tonna. Hér verið að ræða um að gera í tveimur skrefum nokkuð sem átti að gera í einu skrefi samkvæmt upprunalegu frumvarpi, þ.e. að opna á um 230 tonn, eða 115 tonn, eitthvað þar um bil, sem er rosalega skrýtið. Af hverju er þessi takmarkalausa hræðsla við viðskipti í þessu landi? Ég skil ekki hvers vegna. Það er alltaf sama tregðan, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á, við að treysta bændum og öðrum í þessu landi til þess að eiga í eðlilegum viðskiptasamböndum við löndin í kringum okkur.

Verndartollar eru og hafa alltaf verið afleit hugmynd. Þeir eru ekki bara afleit hugmynd í þeim skilningi að þeir minnka vöruúrval og hleypa tregðu í viðskipti, heldur eru þeir líka oft notaðir notað sem vopn í alþjóðasamskiptum, eins og við horfum nú upp á í Bandaríkjunum, til þess að reyna að knýja fram niðurstöður á grundvelli popúlisma eða þjóðernishyggju. Það er kannski skrýtið að minnast á það í samhengi við tolla á osti, en þetta er allt saman sama málið þegar vel er að gáð. Ósjaldan hefur verið talað um ákveðinn popúlisma hjá sjálfstæðisflokkum og framsóknarflokkum í garð bænda, þannig að það sé sagt.

Ég skil það samt vel að bændur séu ekki sáttir. Það er kannski að hluta til vegna þess að þeim var lofað eðlilegum valkostum fyrir skyrútflutning með samningi hér um árið, að gerður yrði samningur við Evrópusambandið um skyrútflutning. Ég er búinn að spyrjast svolítið fyrir um hvað varð um þann samning. Mér skilst að hann muni koma í smáum skrefum sem er kannski dreift yfir fjögur ár. En gott og vel. Ef við gerum það á fjórum árum, hvers vegna kom þá ríkisstjórnin fram með tillögu um að gera þessa breytingu á tveimur árum? Af hverju var ekki hægt að halda sig við upprunalega planið? Ekki það að ég er mjög hlynntur því að gera þetta hraðar. Ég hefði stutt það að fara með það niður í eitt ár og myndi í rauninni styðja það áfram, en ég skil að bændur séu ekki sáttir, sérstaklega mjólkurbændur.

Kannski ætti líka að vera gagnkvæmni í ostaviðskiptum, við ættum að flytja út meira af ostum. Í Frakklandi er hérað sem heitir Cognac sem hefur einkaleyfi á notkun hugtaksins cognac. Mörg önnur svæði hafa fengið einkaleyfi á notkun einhverra hugtaka sem eru almennt notuð yfir matvæli. Af hverju í ósköpunum getum við ekki fengið einkaleyfi á notkun orðsins „skyr“ eins og eðlilegt væri? Vegna þess að skyr er frekar einstök íslensk afurð upprunalega þó svo að Finnar séu komnir í massaframleiðslu og Bandaríkjamenn séu byrjaðir að herma eftir þessu, enda er skyr mjög vinsæl vara þar.

Þetta er enn eitt svona mál. Við þurfum auðvitað að gera betur í landbúnaðarmálum almennt. Hluti af því er einmitt að fara þá leið sem farin var í grænmetisframleiðslu hér um árið. Mikill ótti var við að það myndi t.d. þurrka út paprikurækt þegar tollarnir voru afnumdir. Það kom vissulega lægð, en svo jókst paprikuræktun aftur mikið og hefur verið betur sett síðan.

Það gæti líka gerst með ostana. Auðvitað þurfum við að aðlaga kerfið lítillega til þess að uppfylla helstu óskir allra hvað það varðar. En svo maður tali almennt um landbúnaðarkerfið sem við búum við, sem er stórkostlega skrýtið kerfi í samanburði við kerfin í löndunum í kringum okkur — ég minntist á það áðan að við gerðum hluti á allt annan hátt en löndin í kringum okkur. Við þurfum að rökstyðja það rækilega. Það hefur ekki verið rökstutt. Bændur koma ekki vel út úr þessu kerfi. Neytendur koma ekki vel út úr þessu kerfi. Ég hef ekki séð að afurðastöðvar komi sérstaklega vel út þessu kerfi, þannig að ég veit ekki hver græðir á núverandi fyrirkomulagi. Í alvöru talað skil ég það ekki. Það virðist vera eitthvert massíft niðurfall fyrir allan ágóðann úr þessu kerfi.

Ég mun (Forseti hringir.) styðja þetta mál, en ég (Forseti hringir.) myndi helst vilja að þetta væri gert á allt annan hátt.