148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[20:05]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Frú forseti. Eitt af því besta sem ég veit er Gouda-ostur með sinnepi og belgískur bjór á kantinum. Það er alveg unaðslegt. Ég skora á þingheim að nefna eitthvað sem getur verið betra á sumarsíðdegi en akkúrat það. Ég velti fyrir mér: Hvers vegna er verið að ræna af mér þeirri nautn? (Gripið fram í.)— Já. Ég spyr bara: Af hverju erum við að takmarka innflutning? Af hverju erum við svona hrædd? Af hverju erum við að reyna að loka samfélagi okkar í stað þess að opna það meira?

Ég ætla að velta upp einu. Ég er rithöfundur og ætla að velta fyrir mér ákveðnu „scenario“. Ég hef svolítið gaman af alls kyns vísindaskáldskap og furðuskáldskap. Ég ætla að velta upp ákveðinni sviðsmynd. Hvað nú ef hópur íslenskra rithöfunda tæki upp á því að setja á sérstaka þýðingarkvóta á íslenska bókaútgáfu? Myndu segja: Við ætlum að takmarka fjölda verka sem við leyfum í þýðingu til þess að tryggja að íslenskir rithöfundar hafi nógu stóran markað til að selja verk sín á? Ég ætla bara velta upp spurningunni hér og nú: Myndi markaðurinn stækka? Myndi hann verða stærri? Myndu Íslendingar lesa meira? Yrði bókaútgáfan blómlegri? Nei, hún yrði það ekki því að Íslendingar myndu fljótlega leita í aðrar vörur.

Lausnin er aldrei að loka á hlutina. Eini vandinn við þetta mál er það að það gengur ekki nógu langt, við eigum að ganga miklu lengra og eigum ekki að vera hrædd. Við erum ekki aumingjar. Við erum Íslendingar.