148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[20:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Mig langar aðeins til þess að leggja orð í belg um þann ágæta tollasamning sem hér er til umræðu. Ég held að það hafi verið árið 1958 sem Osta- og smjörsalan var stofnuð. Þá var reyndar búið að vinna osta í Mjólkurbúi Flóamanna síðan 1924, ef ég man rétt. En árið 1958 voru tvær eða fjórar tegundir í boði, þar á meðal Gouda-ostur, sem ég heyrði að hv. þingmaður er svo hrifinn af og lýsti því hér áðan. Hann þarf ekki einu sinni til Belgíu til að borða hann. Sinnepið flytjum við inn og það er til eitthvað af öli, þannig að það er hægt að upplifa þá tilfinningu sem hv. þingmaður lýsti svo ljómandi vel hér áðan.

Núna aftur á móti, 60 árum seinna, er verið að framleiða á Íslandi líklega á annað hundrað ef ekki á þriðja hundrað tegundir af ostum. Ég hugsa að það sé leitun á annarri eins grósku í nokkurri framleiðslu á Íslandi og í mjólkurafurðageiranum.

Við erum að tala um tollasamninginn sem gerður var árið 2015 og átti sem sagt að vera um sérostainnflutning. Eins og blasir við mörgum sem mæta mér þá þykir mér ekkert leiðinlegt að borða osta frekar en annað og ég er mjög einlægur aðdáandi osta. Árið 2015 var okkur sagt að samningurinn sem gerður hefði verið við tollabandalagið stóra, Evrópusambandið, snerist um sérosta. Maður sá fyrir sér osta eins og Gruyère, Rochefort og Feta og eitthvað slíkt, en síðan byrjar maður að lesa viðaukann við samninginn sem hér er að finna fyrir fram mig. Þá skjóta upp kollinum gamlir og góðir kunningjar, sem sagt bæði Gouda og Edam og slíkir ostar, sem eru hreint og klárt ekki sérostar. Þeir eru þvert á móti framleiddir hér í þó nokkuð miklu magni. Það skýtur aðeins skökku við það sem okkur var sagt á sínum tíma. Aftur á móti er það gríðarlega mikið magn sem hér er sett til grundvallar. Það er gríðarlega stórt hlutfall af því sem við erum sjálf að framleiða.

Nú tek ég undir með því sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan, að samningar sem við gerum eiga ekki að markast af sérhagsmunum heldur heildarhagsmunum þjóðarinnar. Ég tek alveg heils hugar undir það.

Mér finnst hins vegar að samningurinn, eins og hann liggur fyrir, sé eins og skraddarasaumaður fyrir íslenska innflytjendur. Ég hugsa að þeir hefðu ekki getað gert betur þó að þeir hefðu skrifað þann lista sjálfir. Þannig að ég sé ekki alveg að vörulistinn eigi að stuðla að heildarhagsmunum heldur bara að sérhagsmunum. Við þekkjum að sá stóraukni innflutningur á landbúnaðarafurðum sem við höfum orðið vitni að undanfarin ár hefur ekki leitt til lægra verðs á þessum vörum þrátt fyrir að í sumum tilfellum hafi bæði magn- og verðtollar verið lækkaðir, þ.e. að ríkið hafi gefið eftir allt upp í tvo þriðju hluta. En það hefur samt ekki dugað til að lækka vöruverðið á þessum vörum. Það er því ekki alveg einboðið að það myndi gerast þrátt fyrir að við myndum hella þessu öllu inn í einu vetfangi á fjórum árum.

Þar sem ég er einlægur talsmaður lágs vöruverðs, búinn að halda um það miklar drápur hér og skrifa margar greinar og fer ekkert frá því að það sé rétta leiðin, held ég að í þessu máli núna væri rétt að nefndin tæki þetta mál til sín aftur og gaumgæfði það ögn betur. Eins og það er búið núna finnst mér það ekki vera í anda þess samnings sem kynntur var fyrir okkur á sínum tíma árið 2015. Því legg ég til að nefndin taki málið til sín og fari gaumgæfilega yfir það þannig að við fáum betri úrslit úr því.