148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[20:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Þetta mál, þetta frumvarp, er afspyrnuslæmt og það veldur mér miklum áhyggjum að menn skuli láta sér detta í hug að leggja það fram við lok þingstarfa. Tollasamningurinn sem vísað er í var nógu slæmur sjálfur. Hann er raunar hræðilegur. Sú saga sem er á bak við það hvernig hann varð til hefur verið rakin hér áður og kannski er óþarfi að fara nánar ofan í það. Hann er ekki til þess fallinn að verja hagsmuni Íslands, ég tala nú ekki um íslenskra bænda og matvælaframleiðenda og þar með hagsmuni Íslands og íslensku þjóðarinnar. Að menn skuli láta sér detta í hug að gera samninginn verri eða réttara sagt flýta hinum neikvæðu og hættulegu áhrifum samningsins sérstaklega og einhliða er stórundarlegt. Og að hér skuli það lagt til af fulltrúum allra flokka nema þingmanni Miðflokksins, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, í atvinnuveganefnd kemur mér afskaplega á óvart.

Sem betur fer hef ég heyrt aðeins annan tón hérna fyrr í umræðunni og vonandi er að málið fari aftur til nefndarinnar og menn skoði það betur. Það er með ólíkindum að rétt við lok þingstarfa komi inn mál sem er til þess fallið að nánast kippa fótunum undan einni af undirstöðuatvinnugreinum landsins, atvinnugrein sem hefur átt á brattann að sækja síðustu misseri, atvinnugrein sem eins og kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er eina atvinnugreinin þar sem stjórnvöld beinlínis gera ráð fyrir kjararýrnun þeirra sem við hana starfa ár frá ári. Svo fá menn í höfuðið algjörlega einhliða tillögu um að Ísland gefi frá sér þó þann rétt sem búið var að semja um í slæmum samningi.

Hvernig verður svona lagað til, virðulegur forseti? Maður hlýtur að velta því fyrir sér. Hvernig dettur mönnum í hug í samskiptum við erlend ríki að ákveða einhliða að gefa frá sér þau verðmæti sem liggja í þessari tollvernd ef það var svona mikill áhugi á að gefa eftir þessa vernd? Hvers vegna í ósköpunum var þá ekki samið um eitthvað á móti? Ég veit ekki hvort nokkru öðru þróuðu ríki dytti í hug að ganga fram með þeim hætti að kasta frá sér einhliða verðmætum, veikja stöðu eigin atvinnulífs einhliða en fá ekkert á móti. Sérstaklega í tollamálum þar sem í meira en 100 ár hefur verið rætt milli þjóða um hvernig menn geti liðkað fyrir viðskiptum og gert fríverslunarsamninga, oft tvíhliða í gegnum samtök fleiri ríkja, en þá hefur það iðulega gengið út á að menn fái eitthvað fyrir það sem þeir gefa frá sér.

Hér er sem sagt komin fram tillaga frá fulltrúum allra flokka nema Miðflokksins þar sem menn leggja einfaldlega til að þessum verðmætum verði kastað, að við gefum þau frá okkur einhliða, nýtum stöðuna ekki einu sinni til að tryggja að íslenskir bændur fái eitthvað á móti. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, virðulegur forseti.

Ég er feginn að heyra að þeir sem hafa talað hér á undan mér leggja flestir til að nefndin taki málið aftur til skoðunar. Það er mjög margt sem þarf að skoða betur í þessari tillögu og ég geri ráð fyrir að það muni taka umtalsverðan tíma að koma skikki á þetta, en eins og komið hefur fram eru þingmenn Miðflokksins þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að segja upp þeim tollasamningi sem vísað er til en ekki hraða innleiðingu hans enda eru forsendur gjörbreyttar frá því að samningurinn var gerður og var hann þó ekki góður þegar hann var gerður á sínum tíma.