148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[21:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur haft til umfjöllunar frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á almennu persónuverndarreglugerðinni og felur það í sér eitt stærsta stökk fram á við í aukinni réttarvernd hins almenna borgara á sviði persónuverndar og friðhelgi einkalífs.

Ég rita undir þetta nefndarálit með fyrirvara og langar að gera grein fyrir því hvers vegna sá fyrirvari er gerður. Þingmenn Pírata hafa á síðustu mánuðum beint því ítrekað til hæstv. dómsmálaráðherra hversu mikilvægt það sé að tryggja að umrætt frumvarp væri lagt nógu snemma fram til þess að það hljóti góða og faglega meðferð í þinginu. Við vöruðum ítrekað við því að leggja málið fram of seint. Ef það yrði gert yrði málið rætt í tímaþröng. Það kynni að vega að möguleikum almennings til að koma að athugasemdum um málið í formi umsagna. Ef frumvarpið kæmi of seint fram og vinna við það á Alþingi yrði það ekki eins og best verður á kosið og væri hætta á að mistök yrðu gerð við lagasetninguna sem kynnu að hafa neikvæð áhrif á hina ýmsu hagsmunaaðila.

Þegar fundum Alþingis var frestað í fyrri hluta maí vegna komandi sveitarstjórnarkosninga hefði mátt draga þá ályktun að ráðherra hygðist ekki leggja frumvarpið fram fyrr en á haustþingi og eiga þannig á hættu að vanvirða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, enda hefði verið stórkostlega misráðið að leggja málið fram þegar Alþingi kæmi saman aftur eftir sveitarstjórnarkosningar þann 28. maí 2018. En sú varð raunin og við búum nú við það.

Að vinna þetta mál á handahlaupum með takmarkaðri aðkomu almennings er ástand sem skapað hefur verið af hæstv. dómsmálaráðherra og stjórnarmeirihlutanum, sem hefur verið afar ósamvinnuþýður í því að velja lengri málsmeðferðartíma, t.d. með því að bjóða lengri umsagnarfrest eða með því að leggja málið fyrr fram.

Ég lagði fram þá kröfu á fundi formanna um að umsagnarfrestur um málið yrði lengdur sem komið var til móts við að einhverju leyti, en þó ekki meira en svo að hinn nýi umsagnarfrestur yrði rétt rúm vika. Það sýnir sig að gefinn var allt of stuttur tími þar sem margar umsagnir bárust eftir tilskilinn frest. Eflaust hefðu fleiri viljað koma að athugasemdum sínum og eflaust hefðu fleiri viljað koma fyrir nefndina til þess að greina frá áhyggjum sínum og athugasemdum og jafnvel hrósi varðandi þetta annars góða frumvarp.

Þá er þetta frumvarp líka enn eitt dæmið um að það er óumflýjanlegt að gerð verði mistök við lagasetninguna. Til þess að tryggja að lögin yrðu gallalaus, eða gallalítil skulum við öllu heldur segja þar sem við erum mjög sjaldan með gallalaus lög á þessu þingi, hefðum við þurft að hafa margfalt meiri tíma til vinnslu málsins. Sú staða er uppi að nauðsynlegt er að samþykkja lög sem kunna að innihalda galla. En sú staða er á ábyrgð flutningsmanns frumvarpsins, hæstv. dómsmálaráðherra. Þess vegna rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara, vegna þess að ég vil alls ekki standa í vegi fyrir því að við virðum okkar alþjóðlegu skuldbindingar og tökum þátt í því sameiginlega verkefni Evrópu allrar að vernda betur persónuupplýsingar einstaklinga, að vernda betur friðhelgi einkalífs einstaklinga á þessari upplýsingaöld þar sem upplýsingar um einstaklinga ganga kaupum og sölum án þess að þeir fái miklu um það ráðið. Að sjálfsögðu vil ég ekki standa í vegi fyrir því.

En ég ítreka þær áhyggjur sem við Píratar höfum haft hér og höfum verið mjög hávær um, sérstaklega hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, af því að málið yrði ekki lagt fram eða ekki lagt fram með góðum fyrirvara og það myndi valda því að það fengi ekki eðlilega og góða málsmeðferð á þingi og að í því myndu mögulega leynast margar villur sem við myndum þá þurfa að una við í dágóðan tíma á eftir.

Svo það sé sagt hef ég verið mjög ánægð með vinnu nefndarinnar í málinu. Ég er mjög ánægð með vinnu starfsfólks nefndasviðs. Það hefur lagt nótt við dag til þess að sníða sem flesta agnúa af málinu sem hafa fundist á þeim stutta tíma sem það hefur verið til meðferðar, því ber að fagna og því ber að þakka fyrir.

Ég endurtek í lokin þann fyrirvara sem hv. þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, las upp í ræðu sinni áðan, þ.e. að ég skrifi undir álitið með þeim fyrirvara að ég taki ekki ábyrgð á þeim villum sem kunna að leynast í þessu umfangsmikla og mikilvæga þingmáli vegna þess hve skammur tími hefur gefist til meðferðar þess. En þar sem ég tel þetta þingmál auka rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs og persónuverndar er ég samþykk meðferð þess, með semingi þó.