148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[21:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Margir þingmenn hafa talað um tímann. Ég ætla líka að byrja á því. Ég ætla að tala um árið 1995 en þá var sá sem hér stendur 16 ára og fór austur á Kirkjubæjarklaustur á tónlistarhátíðina Uxa. Þetta var einfaldari tími. Þetta var tími þar sem fæstir voru með internet heima hjá sér og ef þeir voru með það þurftu þeir að hringja til Reykjavíkur í gegnum tæki sem hafði mjög hátt og skilaði litlum upplýsingum af interneti sem hafði mjög lítið upp á að bjóða. En þetta er einmitt árið sem Evrópusambandið setti reglugerð um persónuvernd, þá sem lögin okkar frá árinu 2000 byggja á og þá sem við erum nú að skipta út fyrir nýja og betri.

Munurinn á upplýsingasamfélagi ársins 1995 og 2018 er svo stjarnfræðilegur að ég fer jafnvel að trúa því, þótt ég sjái mig enn fyrir mér sem 16 ára dreng hoppandi á Uxa, að ég gæti verið farinn að vera að nálgast virðulegan aldur, miðað við magn upplýsinga, hvernig þeirra er aflað og hvernig þeim er miðlað. Þetta er annar heimur. Vísindaskáldsaga ársins 1995 er hversdagslegur veruleiki ársins í dag.

Það sem nýja reglugerðin og nýju lögin gera er að takast á við þann nýja veruleika og þá sjálfsögðu kröfu okkar sem einstaklinga að tryggja eignarhald og umráðarétt yfir persónuupplýsingum okkar í þeim veruleika. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt framfaraskref stigið við samþykkt laganna. Við fögnum því öll.

Það var mikil vinna að koma okkur þetta langt og það er mikil vinna fyrir höndum. Það kom skýrt fram við umfjöllun nefndarinnar. Mig langar að tæpa örstutt á nokkrum þeim atriðum sem nú taka við.

Fyrst vil ég nefna þá stofnun sem við störfum innan, Alþingi sjálft, vegna þess að við erum að gera þá breytingartillögu að persónuverndarreglur nái ekki utan um störf Alþingis. Svo að það sé alveg á hreinu þá er hugmynd okkar með því ekki að hefja okkur yfir almenn lög heldur sáum við okkur ekki fært á þeim tíma sem fyrir hendi var að vinna útfærsluna á því hvaða þættir starfa Alþingis ættu erindi undir persónuverndarreglur eins og þeir eiga erindi undir lög um stjórnsýslu- og upplýsingalög. Það er ekki skýrt í dag vegna þess að Alþingi gegnir margþættu hlutverki, hluti þess á ekkert erindi undir þá lagabálka, en þar sem stjórnsýsla er framkvæmd innan stofnunarinnar eigum við að láta hin almennu lög gilda.

Því leggjum við til að í framhaldinu muni forseti Alþingis og einhverjir honum nærgengir vinna í því að útfæra þetta þannig að allir lagabálkarnir þrír umgangist Alþingi á sambærilegan hátt.

Sama þarf að gera með dómstólana þar sem lengi hefur verið togast á um það hvernig stjórnsýslulög og upplýsingalög eiga við um störf þeirra. Sama þarf að gera með persónuverndarlög í framhaldinu.

Það sem þarf að gera í haust er líka að fá inn á þing gríðarstóran bandorm sem tekur á hinum ýmsu sérlögum þar sem fjallað er á einhvern hátt um vinnslu, miðlun og öflun persónuupplýsinga. Það gætu verið tugir lagabálka sem þurfa að koma frá ráðuneytum eins fljótt og hægt er að lokinni þingsetningu. Ég nefni sem dæmi lög um skjalasöfn, lög um landlækni. Listinn er endalaus.

Eins þurfum við að fara að ræða setningu nýrra sérlaga, eins og t.d. var bent á í umsögnum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins er varðar atvinnutengt samhengi, t.d. vímuefnarannsóknir á starfsmönnum og eftirlit með tölvupósthólfum þeirra. Þetta allt saman vantar miklu skýrari ramma utan um. (Forseti hringir.)

Þá þarf á komandi hausti að skoða af alvöru þann kostnað sem hlýst af þessu hjá stærstu stofnunum ríkisins sem eru með flóknustu vinnslu persónuupplýsinga, (Forseti hringir.) hvort koma þurfti til móts við þær í fjárlagavinnunni.

Af því að forseti er farinn að slá svo undurblítt í bjölluna langar mig að nefna tónlistarkonuna Björk sem árið 1995 átti einmitt vinsælasta lag Íslands á þessum tíma árs, „Army of me“, með leyfi forseta. Það þurfti heilan her fólks til að koma þessu máli í gegn. Ég ætla ekki að nefna það fólk sem vann þetta í ráðuneytinu eða okkur þingmennina. Við getum (Forseti hringir.) hrósað hvert öðru í bakherbergjum. Mig langar að nefna sérstaklega starfsfólk Alþingis. Ég held að það sé engum ofsögum sagt að við höfum hertekið nefndasvið Alþingis og gott betur síðustu vikur. Mig langar að nefna umsagnaraðila sem eins og fram hefur komið (Forseti hringir.) fengu allt of skamman tíma til að skila inn umsögnum, en þeir gerðu það margir, þeir gerðu það vel og þeir mættu kvöld og nætur, helgar og hvenær sem er, fyrir nefndina til að hjálpa okkur að sigla málinu í höfn.