148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[21:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi. Ég vil taka undir það með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni að þar er réttarbót að finna fyrir hinn almenna borgara. Hins vegar er þetta frumvarp mjög viðamikið og íþyngjandi. Meginmarkmið þess er að tryggja einstaklingum aukna vernd og aukin réttindi við meðferð persónuupplýsinga. Rætt er um hugarfarsbreytingu hvað varðar meðferð persónuupplýsinga, umgengni um slíkar upplýsingar og þýðingu þeirra. Allt hljómar þetta vel og eru í sjálfu sér göfug markmið, en áhrif frumvarpsins verða víðtæk og snerta öll svið samfélagsins eins og komið hefur fram. Einmitt þess vegna kallar þetta frumvarp á vandaða umræðu í þingsal. Þau vinnubrögð sem við höfum horft upp á hér og flest allir þingmenn hafa komið inn á, hvernig þetta hefur komið inn í þingið með afar skömmum fyrirvara, eru alls ekki til fyrirmyndar og sérstaklega í ljósi þess hversu umfangsmikið og íþyngjandi frumvarpið er.

Mig langar aðeins að víkja að kostnaði við þetta frumvarp vegna þess að ég tel að því miður hafi verið horft fram hjá því og það er mjög slæmt. Ef við horfum aðeins á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið kemur þar fram að þetta frumvarp, verði það að lögum, mun hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir sveitarfélögin. Fram kemur að fyrirhuguð lagasetning kalli á nýtt og bætt verklag um persónuvernd og muni hafa veruleg áhrif á alla stjórnsýslu sveitarfélaga og leiða til umfangsmikils kostnaðarauka.

Þá segir Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni að fjölmörg atriði í frumvarpsdrögunum séu mjög óljós og skýrleika vanti um þau fyrirmæli sem sveitarfélög hafa um hvernig standa beri að málum, það er að sjálfsögðu mjög slæmt.

Árlegur rekstrarkostnaður sveitarfélaganna vegna þessa er áætlaður um 390 millj. kr. Hins vegar er undirbúningskostnaður við verkefnið sem leggst á sveitarfélögin áætlaður um 770 millj. kr. Það eru verulegar upphæðir og er hvergi fjallað um það í tengslum við þetta mál hvernig koma eigi til móts við sveitarfélögin hvað þetta varðar.

Stærsti liðurinn í undirbúningskostnaðinum er annars vegar verkefnastjórn og hins vegar kortlagning vinnslu sveitarfélaga og gerð vinnsluskráa. Þetta er áætlað að kosti um 660 millj. kr. Þannig að við sjáum það, herra forseti, að hér eru háar upphæðir á ferðinni. Allt er þetta mjög athyglisvert. Ef við förum nánar yfir þær tölur sem stefnt er að að leggja á sveitarfélögin sjáum við alveg að það verður að koma mótframlag. Það verður að koma til einhvers konar mótframlaga eða breyta tekjustofnum sveitarfélaganna þannig að þau séu í stakk búin að takast á við þetta mál.

Í málinu hefur verið rætt um víðtækt samráðsferli. Ég sé hvergi að það hafi átt sér stað gagnvart sveitarfélögunum. Mörg þeirra hafa ekkert svigrúm til að mæta þessum mikla aukakostnaði. Í dag eru sum sveitarfélög ekki einu sinni í stakk búin að halda uppi eðlilegu skólastarfi vegna slæmrar fjárhagsstöðu, hvað þá að fara að taka á sig þessar skuldbindingar Evrópusambandsins sem koma frá Evrópusambandinu.

Tíminn er skammur, herra forseti. Ég vil bara segja að lokum að það er alveg ljóst að þetta mál þarfnast mun betri og vandaðri umræðu. Hérna eru veigamikil atriði er lúta ekki síst að (Forseti hringir.) kostnaði, innleiðingu og framkvæmd laganna, ákvæði um sektargreiðslur, skýrleika laganna, (Forseti hringir.) fræðslu o.s.frv., sem þarfnast mun meiri samráðs við hagsmunaaðila. Við megum ekki að ganga (Forseti hringir.) of nærri framsali valds og fullveldi Íslands.