148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

Markmið tillögunnar er að gerð verði óháð, fagleg staðarvalsgreining til að sjá hvar hagkvæmast og best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. Nefndinni bárust 11 umsagnir frá hagsmunaaðilum þar sem fram komu ýmis sjónarmið.

Þeir gestir sem mættu á fund nefndarinnar sem studdu nýja staðarvalsgreiningu bentu á að húsakostur Landspítalans virtist vera í miklu verra ástandi og henta mun verr en ráð var fyrir gert þegar forsendur staðarvals byggðust á því og því mikilvægt væri að nýta gamla húsnæðið. Fyrir liggur að endurnýja þarf nánast allt núverandi húsnæði spítalans. Áhyggjur hafa verið uppi um að núverandi staðsetning henti illa út frá umferðartengingum innan höfuðborgarsvæðisins og við landið allt. Talað er um að forsendur séu brostnar. Á meðan staðarvalsgreiningin fer fram er best að ítreka það að þá mun starfsemi Landspítalans, sem og uppbygging við Hringbraut, halda áfram ótrufluð. Það er óábyrgt að velta staðarvalinu ekki fyrir sér á þessum tímapunkti, þess vegna er nauðsynlegt að meta stöðuna.

Núna er því rétti tíminn til að ræða hvort önnur staðsetning kunni að vera betri en Hringbraut miðað við núverandi aðstæður og það sem hefur breyst á síðustu árum. Sú vinna verður forsenda byggingar hins nýja þjóðarsjúkrahúss, hvort sem það rís við Hringbraut eða annars staðar. Skipulag og byggingaráform hafa tekið tíðum breytingum frá því að fyrst var tekin ákvörðun um staðsetningu spítalans. Það eina sem ekki hefur breyst er staðsetningarvalið, en eðlilegt er að meta þann þátt eins og alla hina um leið og þekkingin sem verður til verður notuð til að meta þessa sömu stöðu.

Ekki hefur verið samstaða um málið á Alþingi á undanförnum árum. Árið 2015 var lögð fram þingsályktunartillaga um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut en henni var breytt í tillögu um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði spítalans við Hringbraut. Einungis þannig náðist samstaða um þá tillögu. Það var í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma en í stjórnarsáttmála hennar var því haldið opnu að skoða ætti hver besta framtíðarlausnin væri en um leið lögð áhersla á mikilvægi þess að ráðast í úrbætur á núverandi húsnæði Landspítala. Þar sagði: „Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

Í ljósi þess að málið hefur dregist í meðförum nefndarinnar leggur minni hlutinn til að skýrslu ráðherra um niðurstöður staðarvalsgreiningar verði seinkað en hún eigi að vera tilbúin eigi síðar en 15. október 2018. Minni hlutinn tekur undir markmið tillögunnar og áréttar nauðsyn þess að greint verði á heildstæðan hátt hvar er hagkvæmast og best að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús með tilliti til allra helstu þátta og mælikvarða sem skipt geta máli. Minni hlutinn bendir á að slík greining getur orðið til að auka sátt um málið á þingi og meðal þjóðarinnar og leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „í maí 2018“ í lokamálslið tillögugreinarinnar komi: 15. október 2018.

Undir þetta rita Anna Kolbrún Árnadóttir, Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, og Karl Gauti Hjaltason.