148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[21:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Með ræðu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar hér áðan barst andblær þeirrar þöggunar sem einkennt hefur þetta mál í 16 ár. Ekki hefur mátt ræða aðra staðsetningu nýs háskólasjúkrahúss eða þjóðarsjúkrahúss heldur en Hringbrautarstaðsetninguna þrátt fyrir að í skýrslu frá 2002 segi einmitt að betra sé að hafa spítalann annars staðar, t.d. í Fossvogi. Í næstu skýrslu þar á eftir, sem kom tveimur árum seinna, held ég, var tekið fram að ef ekki væri hægt að hafa spítalann neins staðar annars staðar skyldi hann reistur við Hringbraut. Um þá valkosti hefur ríkt þöggun í 16 ár. Satt besta að segja skil ég ekki hvað menn hafa verið að gera í 16 ár. Nú er reyndar búið að búa til um þetta ohf. sem kostar 110 milljónir á ári bara í laun og auðvitað reyna menn að halda í svona sporslur til framtíðar, að sjálfsögðu. Hver myndi ekki gera það? En það er ekkert faglegt við þetta, ekki nokkur skapaður hlutur.

Hvað hefur gerst síðan árið 2002? Búið er að setja upp nýtt skipulag, heildarskipulag fyrir Reykjavík. Byggðin hefur færst mjög í austur, Umferðarteppur hafa aukist alveg skelfilega. Sagt hefur verið í hálfkæringi, þó að það sé grafalvarlegt mál, að það sé einn staður á Íslandi og einn tími þar sem sé sérstaklega skelfilegt að fá hjartaáfall á Íslandi, það sé í efri byggðum Kópavogs klukkan 7.45 að morgni, vegna þess að öll líkindi eru á því að menn verði fyrir einhverjum hörmungum á leið í sjúkrabíl á Landspítalann við Hringbraut. Það gefur augaleið, enda hafa menn hrakist úr þessari stöðu, þeir hafa hrakist horn úr horni. Og hver er nýjasta tilgátan? Það er tveggja spítala tilgátan svokallaða. Það á að byggja þennan spítala, eða þennan meðferðarkjarna, sem á að leysa allt en leysir ekki neitt. Það á að byggja hann núna og hann á að klárast árið 2024 eða 2025.

Hvað á þá að gera? Jú, þá á að fara að huga að næsta spítala, vegna þess að menn vita að þetta er vonlaust. Hver hefur séð vídeó sem búið var til fyrir ársfund Landspítalans um daginn og sér hvernig þarna á að hrúga niður byggingu? Og nota bene, þeir sem horfa á myndbandið sjá líka að Hringbrautin er óbreytt. Tvær akreinar í hvora átt. Menn eiga að koma á hjóli. Ég veit ekki um neinn einasta sjúkling sem kemur á hjóli.

Ekki hefur verið talað um aðstandendur á neinum einasta fundi. Ég er búinn að sitja nokkra fundi um þetta mál og það er aldrei talað um þá. Það er talað mikið um starfsfólk, svolítið um sjúklinga. Það er ekki talað um aðstandendur. Það er ekki talað um fólk sem kemur þúsundum saman á hverjum einasta degi til að hitta ástvini sína sem eru til meðferðar á spítalanum á hverjum tíma. Þeir eiga að koma með borgarlínunni eða á hjóli með konfektkassann á bögglaberanum. Gamlar konur, sjálfsagt með blómvöndinn þversum uppi í sér, hjóla til að heimsækja gamlingjann sem liggur á meðferðardeildinni. Sjá menn fyrir sér þessa hörmung?

Herra forseti. Það er búið að sýna fram á það á hverjum fundinum á fætur öðrum að það er algjörlega hægt að taka ákvörðun um staðarval á sex til tólf mánuðum. Það tefur þetta mál hugsanlega um níu mánuði, hugsanlega tólf, að byggja nýjan spítala frá grunni. Að tala um það að það kosti einhver 10, 15 ár í viðbót er þvílík tjara að það er eiginlega móðgun við almenna skynsemi að halda þvílíku fram.

Að því sögðu er ég spenntastur yfir því hvort það sama komi fyrir Framsóknarflokkinn hér á eftir í atkvæðagreiðslu og það sem kom fyrir Pétur hérna um árið í Biblíunni að hann afneitaði frelsaranum tvisvar áður en haninn gól þrisvar. Ef við náum að greiða atkvæði núna innan einhverra klukkutíma þá fer líklega þannig fyrir Framsóknarflokknum að hann yfirgefur tvö af stærstu kosningamálum sínum áður en bjallan glymur fjórum sinnum. Bágt er nú komið.

En menn skemmta sér vonandi á miðstjórnarfundinum vestur á Sögu. Þeir þurfa þá ekki að standa í einhverjum leiðindum við fólk sem er að reyna að tala við þá um pólitík og loforð sem gefin hafa verið, þau eru léttvæg. Þetta mál, herra forseti, er miklu alvarlegra en við höldum. Við skulum samþykkja að fara í alvörustaðarvalsgreiningu og við skulum hætta að berja hausnum við þennan stein sem menn eru búnir að berja í 16 ár.