148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[21:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég held að væri ágætt að fá þessa síðustu ræðu hér því að hún er mjög lýsandi fyrir galgopaháttinn sem einkennir gagnrýni á þessa tillögu og hin einbeittu áform kerfisins um að endurskoða ekki þá stefnu að byggja nýjan spítala við Hringbraut sama hvað kemur á daginn. Það hefur býsna margt komið á daginn frá því að fyrst var ákveðið að ráðast í þá framkvæmd, sem var líklega fyrir um rúmum 40, 45 árum, jafnvel 50 árum. Það var reyndar byrjað að byggja eftir þeim áformum. Læknagarður, sem svo er kallaður, stundum kallaður Tanngarður, er bygging sem farið var að reisa 1977 eða 1978. Hann stendur enn hálfkláraður.

Í þeim áformum sem nú eru uppi stendur til að hafa þá byggingu sem hluta af uppbyggingunni við Hringbraut, uppbyggingu sem byggir í besta falli á 15 ára gömlum forsendum, í versta falli á hálfrar aldar gömlum forsendum. Ekkert, og nú ítreka ég það, virðulegur forseti, ekkert í upphaflegum forsendum, hvort sem við lítum 15 ár aftur í tímann eða 50, er óbreytt. Forsendur eru allar breyttar og það er algjörlega með ólíkindum að heyra nýjustu tillöguna frá þeim sem hafa einsett sér að spítalinn skuli rísa við Hringbraut og hvergi annars staðar. Hún er sú að menn eigi þá þegar að hefja undirbúning að byggingu næsta spítala einhvers staðar annars staðar. Með því eru síðustu rökin fyrir Hringbrautarframkvæmdinni fallin því að við fengum þó að heyra það að ef byggt yrði við Hringbraut væri það heildarlausn til langs tíma, lausn um fyrirsjáanlega framtíð. Þess vegna þyrftu menn að byggja við Hringbraut, til þess að nýta gamla húsakostinn og halda áfram rekstri á sama stað. En nú tala menn um að það muni ekki duga og að tímabært sé að fara að huga að byggingu annars staðar.

Ef menn eru búnir að viðurkenna það, hvers vegna í ósköpunum huga menn þá ekki að framtíðinni strax með því að byggja nýtt alvöruhátæknisjúkrahús sem virkar frá grunni á nýjum stað?

Menn þekkja flestir rökin fyrir þessu því að þau eru augljós. Þau eru sláandi. Hversu fáránlegt það er að ætla að nýta húsakost sem er líklega frægastur af öllum húsum á Íslandi fyrir gallana sem á honum eru, hvort sem um er að ræða myglu, rakaskemmdir, maura, mýs, eða önnur vandamál sem verið hafa í fréttum af Landspítalanum undanfarin ár, að nýta það sem framtíðarhúsnæði Landspítalans, þegar menn eiga kost á að byggja nýtt glæsilegt þjóðarsjúkrahús á stað sem liggur vel við samgöngum, byggja þar sem hægt er að framkvæma hratt, þar sem hægt er að framkvæma á hagkvæman hátt. Eins og margoft hefur verið bent á er miklu dýrara og tímafrekara að framkvæma inni í miðborg. Það þarf að byggja í samræmi við þarfir nútímans, byggja sjúkrahús sem virkar sem ein heild, í stað þess að byrja á því að byggja nýjan meðferðarkjarna og ætla svo eftir guð má vita hversu mörg ár í ljósi reynslunnar, að tengja þá nýbyggingu og aðrar nýbyggingar við gömlu húsin sem lýst hefur verið sem ónýtum, eftir að hafa gert þau upp með ærnum tilkostnaði. En í forsendum var gert ráð fyrir að það kostaði 100.000 kr. á fermetra að gera upp gömlu húsin. Það vita allir sem til þekkja að það er fráleit ályktun og muni kosta margfalt að gera upp gömlu húsin. Allar forsendur, sama hvaða forsendur við skoðum fyrir framkvæmdina á Hringbraut, eru fallnar um sjálfa sig.

Ég sé að hæstv. forseti hefur aðeins úthlutað mér fimm mínútum í þessari fyrstu ræðu til þess að fara yfir þetta yfirgripsmikla mál, svoleiðis að ég ætla að biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.