148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[21:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það var nú ákveðið upplifelsi að hlusta á dæmalaust undarlega ræðu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar áðan, en það verður auðvitað að hafa eitthvert skemmtanagildi í þessu hérna undir lokin.

En að Landspítalanum og því verkefni sem snýr að því að byggja upp nýtt þjóðarsjúkrahús. Það hefur verið með miklum ólíkindum að fylgjast með því hvað málið er keyrt áfram af miklum þunga og hvað öll umræða um það virðist strjúka þeim sem næst því standa öfugt. Ég hef haft það fyrir reglu að taka mér ekki orðið þöggun í munn, en það er mesta furða hvað margir starfsmenn á spítalanum sérstaklega sjá ástæðu til að setja sig í samband við þá sem tala fyrir annarri staðsetningu en við Hringbraut. Það kemur auðvitað að langmestu leyti til af því að menn upplifa sig í þeirri stöðu að illa verði tekið á þeim sjónarmiðum séu þau sett fram innan spítalans. Gefum okkur að eiginleg staðarvalsgreining hafi yfir höfuð farið fram, sem er nú umdeilanlegt, þá eru allar forsendur frá þeim tíma meira og minna löngu breyttar, í grundvallaratriðum margar hverjar.

Við erum í þeirri stöðu að sumir vilja meina að staðarvalsgreining hafi verið framkvæmd í kringum árið 2001, síðan koma þeir menn sem mest og best segjast þekkja til og segja að aldrei hafi verið framkvæmd nein staðarvalsgreining. En það er ekki bara það að engin eiginleg staðarvalsgreining hafi farið fram, heldur erum við líka að horfa til þess að allar forsendur er varða umferðarflæði, aðflug, verð, kostnað við uppbygginguna, bæði nýbyggingu (Gripið fram í.) og … það væri áhugavert ef kæmi á daginn að hægt væri yfir höfuð að lenda þyrlum þar sem þyrlupallurinn er teiknaður inn á teikningar dagsins í dag, af því að hv. þingmaður kallar hér fram í.

En það eru forsendurnar sem menn gefa sér til að mynda hvað gömlu byggingarnar varðar. Mér er til efs að margir átti sig á því, nema þeir sem eru inni í málinu bókstaflega, að gömlu byggingarnar eru ekki hluti af þeirri kostnaðaráætlun sem nú liggur fyrir. Fyrirtækið um uppbygginguna, Nýr Landspítali ohf., álítur gömlu byggingarnar ekki vera sitt vandamál. Það verður einhver annar að klastra þeim myglubyggingum saman fyrir 100 þús. kr. á fermetra. Það vita náttúrlega allir að það er ómögulegt og mun aldrei takast og mun aldrei standast.

Hér er talað um að menn ætli sér að vera tilbúnir með stóran hluta þessarar uppbyggingar árið 2023. Ef við tökum mið af því hvernig hefur gengið með sjúkrahótelið, sem hefur verið hálfgerð sorgarsaga, þá eru líkurnar á að þær tímaáætlanir standist hverfandi, svo vægt sé til orða tekið. Menn berja sér á brjóst yfir því að verkefnið sé fjármagnað til enda. Ef menn ætla að koma þessum framkvæmdum upp fyrir þá 75 milljarða sem eru til þess ætlaðir í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem hittir þannig á að passar við þann framkvæmdatíma sem um er rætt, það er að segja til 2023, þá lifa menn bara í einhverjum draumaheimi. Þegar villurnar koma fram í þeim áætlunum verða þær ekki leystar öðruvísi en með fjárveitingum frá hinu opinbera. Þá verður dýrt að hafa litið fram hjá þeim kostum sem til staðar voru, að byggja upp á nýjum stað þar sem hægt er að ná fram hámarkshraða í uppbyggingu með skynsamlegum hætti. Það þarf ekki að taka mikið tillit til nærliggjandi bygginga og menn sitja ekki uppi með tugi þúsunda fermetra hálfónýtra bygginga sem þarf að tjasla upp á þegar nýbyggingin er loksins komin.

Það er kátbroslegt í besta falli að horfa til þess að hér eru ríkisstofnanir og fyrirtæki um allan bæ að flýja hús vegna mygluvandamála. Það á að rífa risahús hjá Orkuveitu Reykjavíkur, ef ein tillagan gengur fram hér. En á sama tíma á að tjasla upp á það hús sem oftast hefur komist í fréttir vegna myglu. Hverjir eru geymdir þar? Það er sjúkasta fólkið okkar. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. En það er einhvern veginn það umhverfi sem umræðunni hefur verið búið. (Forseti hringir.)

Nú er tími minn útrunninn, en ég hvet þá sem tala á eftir til að ljá þessari tillögu okkar Miðflokksmanna stuðning og (Forseti hringir.) við vonum að við færum þetta mál til betri vegar.