148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég ræddi aðeins hversu lítið stendur eftir af þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar þegar ákvörðun var síðast tekin um að byggður skyldi nýr Landspítali við Hringbraut. Ég næ ekki að fara yfir þann lista allan á þeim stutta tíma sem úthlutað er í ræður um þetta mál en vil nefna sérstaklega að meginforsendurnar á sínum tíma, annars vegar um nýtingu gömlu húsanna og hins vegar um mikilvægi þess að ráðast í slíkar framkvæmdir við Hringbraut til að styðja við miðbæinn í Reykjavík, eru ekki aðeins fallnar heldur eru þær orðnar hjákátlegar í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa í millitíðinni. Í fyrsta lagi, eins og rakið var á undan, liggur ljóst fyrir að að því marki sem gömlu byggingarnar eru ekki ónýtar mun kosta margfalt meira að gera þær upp en menn gerðu ráð fyrir og verður miklu óskilvirkara og óhagkvæmara en að byggja nýtt á nýjum stað.

Hvað varðar það hlutverk Landspítalans að reyna að færa nýtt líf í miðbæinn, áform sem uppi voru þegar verslunarrými og íbúðir stóðu tómar í miðbænum, nægir líklega að benda á að hvergi á Íslandi er þenslan á fasteignamarkaði eins mikil og einmitt í miðbæ Reykjavíkur, svoleiðis að þau rök hafa snúist upp í andhverfu sína.

Hvað varðar allt tal um að búið sé að eyða svo löngum tíma í að undirbúa þessi mistök að menn verði einfaldlega að fá að klára þau þá bendi ég á að þótt það séu líklega liðin um 50 ár frá því að fyrst var tekin ákvörðun um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut þá hafa áformin stöðugt breyst í öllum grundvallaratriðum; áformin sem kynnt voru árið 2005 sem sigurtillaga í samkeppni, áformin sem voru kynnt 2010, áformin sem voru kynnt 2012, áformin sem unnið er eftir núna, ekkert samræmi er milli þeirra áforma. Þeim hefur stöðugt verið breytt, ekki aðeins í meginatriðum, heldur gjörbreytt.

Ég hvet fólk til að kynna sér t.d. teikningarnar af húsunum og legu húsanna þar sem ekkert er eins og lagt var upp með 2005, ekkert er eins og lagt var upp með 2010. Þetta tekur stöðugum breytingum, allt nema staðarvalið. Þar ræður þrjóskan för, kerfishugsunin ræður för og kerfisflokkarnir sem mynda núverandi ríkisstjórn virðast ekki tilbúnir til að skoða hlutina upp á nýtt út frá þeim staðreyndum sem þó blasa við.

Framsóknarflokkurinn boðaði til blaðamannafundar með Samtökum um betri spítala á betri stað fyrir kosningar til að leggja áherslu á að eitt af meginatriðum flokksins í kosningabaráttunni væri að byggður yrði nýr spítali á nýjum stað. Það var ekki búið að mynda ríkisstjórn þegar flokkurinn var búinn að afsala sér því kosningaloforði sínu og svíkja það og bætist það þá við öll hin. Það var ótrúlegt að heyra t.d. ræður hæstv. núverandi samgönguráðherra um Arion banka skömmu fyrir síðustu kosningar og svo var það allt saman svikið undir eins. Það er ekki að ástæðulausu að ég nefni Arion banka því að ef ríkisstjórnin hefði ekki klúðrað því máli hefði hún ekki glutrað niður fjármagni sem nemur rúmlega byggingarkostnaði nýs Landspítala á nýjum stað. En sumir hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs virðast vera sérstaklega viðkvæmir fyrir því að Framsóknarflokkurinn og kosningasvik hans séu nefnd, eins og þeir upplifi einhverja sérstaka þörf fyrir að vernda minnsta bróðurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu fyrir því að bent sé á kosningasvik hans, þannig að ég skal bæta við svikum Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn, flokksmennirnir þar mega þó eiga það að þeir ákváðu á síðasta landsfundi sínum að gera grundvallarbreytingu á stefnunni varðandi Landspítalann og ákváðu að þegar skyldi hafin leit að stað fyrir framtíðaruppbyggingu nýs Landspítala, þ.e. þann Landspítala sem við erum að tala um í þessari umræðu, virðulegur forseti. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ákvað í rauninni að samþykkt skyldi tillaga nákvæmlega eins og sú sem við ræðum hér. En hvað gera þingmenn flokksins? Þeir láta eins og þeir heyri ekki í eigin flokksmönnum.

Ég átti eftir að nefna Vinstri græna og kosningasvik þeirra, svoleiðis að ég bið virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.