148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að fjalla hér í örstuttri ræðu um staðarval Landspítalans. Ég vil nota tækifærið hér til þess að þakka meiri hluta þingsins í 16 ár fyrir að styðja uppbyggingu við Hringbraut fyrir afdráttarlausa afstöðu og skýran stuðning við uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Í 16 ár hefur það verið skýrt héðan úr þingsal og hefur verið gríðarlega mikilvægt fyrir þá uppbyggingu sem þar er að þar hefur aldrei orði hlé á.

Virðulegi forseti. Mér er sérstök ánægja að fara hér yfir brot úr þingræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi formanns fjárlaganefndar, í ræðu 3. desember 2014 þegar hún segir, með leyfi forseta:

„Það er með miklu stolti sem ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um fjárlög sem sett eru hér í annað sinn í tíð hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og ríkisstjórnar hans.“

Og síðar: „Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að veita ný framlög samtals að fjárhæð 7,3 milljarðar kr. Þar má nefna styrkingu á rekstrargrunni Landspítalans og fleiri sjúkrahúsa, hönnun á meðferðarkjarna við nýjan Landspítala — afar ánægjulegt, þarna er ríkisstjórnin að gefa vísbendingu um það sem koma skal og raunverulega að skapa þá framtíðarsýn að Landspítalinn verði byggður upp þar sem hann er.“

Afar ánægjulegt. Þarna er ríkisstjórnin að gefa vísbendingu um það sem koma skal og raunverulega að skapa þá framtíðarsýn að Landspítalinn verði byggður upp þar sem hann er. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Virðulegi forseti. Þetta er til marks um að aldrei hefur komið hlé í skýra afstöðu meiri hluta Alþingis öll þessi ár með uppbyggingunni við Hringbraut. (Gripið fram í: Já.) Það hlé verður heldur ekki núna þegar meiri hluti Alþingis mun enn einu sinni taka afdráttarlausa afstöðu til núverandi ákvörðunar um staðsetningu og uppbyggingu Landspítalans – háskólasjúkrahúss við Hringbraut við þetta ánægjulega tækifæri við þinglok nú á vorinu 2018 í sömu viku og við opnum tilboð um jarðvegsframkvæmdir og hönnun nýs rannsóknarkjarna.

Virðulegi forseti. Það er gott að fá tækifæri til þess að staðfesta það eina ferðina enn að ákvörðunin um staðsetningu við Hringbraut var rétt. Það er mikilvægt fyrir sjúklinga. Það er mikilvægt fyrir fjölskyldur þeirra. Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Landspítalans sem allt of lengi hefur þolað erfiðan húsakost. Það er mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að taka stolt þátt í því að styðja hér á meiri hluta Alþingis eina ferðina enn að hefja stærstu framkvæmd lýðveldistímans sem við eigum vonandi öll eftir að verða stolt af. Ég hlakka til að taka fyrstu skóflustunguna að meðferðarkjarnanum nú í sumar, það sumar sem við höldum um leið upp á 100 ára fullveldi Íslands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)