148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. 16 ár eru langur tími. Á 16 árum breytist margt, samfélög þróast, borgin hefur þróast en samt sem áður eru það kerfisflokkarnir, kerfiskallarnir og kerfiskonurnar sem berja hausnum við steininn, halda áfram vitleysunni og sýna fram á að betra sé að gera þetta á öðrum stað. Haldið er áfram.

Það er misskilningur að menn hafi lagt til að hætt verði og skrúfað fyrir við Hringbraut. Auðvitað þarf að gera þar ákveðna hluti, það vita allir.

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur verið fast í þingnefnd mjög lengi vegna þess að stjórnarmeirihlutinn tók það í gíslingu, sérstaklega þingmenn Vinstri grænna, og hleyptu því ekki áfram í nefndinni. Það er sannleikurinn í málinu. Við höfum komið inn á það áður.

Mig langar að endingu nefna að 25. október 2016, held ég það hafi verið, boðaði Framsóknarflokkurinn til blaðamannafundar með fulltrúum Betri spítala á betri stað, eða eitthvað slíkt, þar sem blásið var til sóknar og sagt að breyta ætti um kúrs og byggja spítalann á nýjum stað. Nú er búið að skipta um skoðun, líkt og í svo mörgu öðru hjá þeim ágæta flokki. Við sjáum væntanlega í annað sinn í dag flokkinn hverfa fá loforðum og stefnu sinni um annan stað. Sama gildir um Sjálfstæðisflokkinn þar sem forystan ákvað að fara á skjön við ályktanir flokksmanna, gera þær að engu. Það er mjög merkilegt að upplifa þetta á svo skömmum tíma. Ég hugsa að þeir einu sem eru samkvæmir sjálfum sér í stjórnarmeirihluta séu Vinstri grænir. Þeir hafa allan tímann viljað gera einhverja vitleysu og mistök í málinu.

Virðulegi forseti. Það er ágætt að við komumst til þessarar atkvæðagreiðslu. Þá drögum við fram hvað það er sem stjórnarherrar hér raunverulega vilja, hvort meining er á bak við stóru orðin sem þeir höfðu uppi um spítalann, ályktanir Sjálfstæðisflokksins og stór orð Framsóknarmanna.