148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Enn eina ferðina fáum við að heyra líklega verstu rökin fyrir áformunum um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, þau rök að það hafi verið ákveðið fyrir svo löngu og svo oft að gera mistökin að menn verði að fá að klára mistökin. Það eru ekki rök, virðulegur forseti, það gengur ekki upp. Ef við lítum á staðreyndir málsins blasir það við að hægt er að gera þetta hraðar og betur á nýjum stað, miklu betur á miklu hagkvæmari hátt. Hæstv. samgönguráðherra lýsti því í annarri atkvæðagreiðslu áðan að Framsóknarflokkurinn vildi faglega vinnu og nefndir og skoða hlutina og velta þeim fyrir sér. Nú gefst tækifæri til þess að vinna hlutina faglega, fá fagmenn til þess að leggja mat á hlutina áður en endanleg ákvörðun er tekin. Það vill svo vel til að það er í máli sem Framsóknarflokkurinn hefur í tvennum kosningum gert að einu sínu helsta kosningamáli, þ.e. að fram (Forseti hringir.) skuli fara staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, nákvæmlega í samræmi við þá tillögu sem liggur hér fyrir.