148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Lykilatriði í þessu máli er að allir aðilar sem ég hef talað um þetta við eru sammála um að ekki eigi að stöðva eða hægja á eða fresta uppbyggingunni við Hringbraut. Það er lykilatriðið. Í þessari tillögu er hins vegar óskað eftir því að gerð verði staðarvalsgreining til að skoða hvort eitthvað annað gæti verið hagkvæmara og betra fyrir sjúklinga. Öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu er í forgangi og verður að vera í forgangi hjá okkur öllum. Ég sé tillöguna ekki ganga gegn því markmiði. Þegar ég gekk hringinn rétt fyrir kosningarnar 2016 til að spyrja um afstöðu í málinu, sama hvort það var Betri spítali á betri stað eða Spítalinn okkar sem vill hafa hann við Hringbraut, landlæknir eða forstjóri Landspítalans, allir voru sammála um að ekki mætti stöðva eða hægja á uppbygginguna við Hringbraut. Jafnframt voru allir sammála um það mætti fara fram staðarvalsgreining af því að við þurfum að skoða aðra kosti með góðum fyrirvara, þetta er uppbygging inn framtíðina. Hún tók 16 ár í þetta skiptið, þannig að langtímaframkvæmd eða staðarvalsgreining er ekki af hinu slæma. Þjóðin er líka klofin málinu. Það besta sem er hægt að gera er að fá fram upplýsingarnar sem þessi þingsályktunartillaga kallar fram og alls ekki hreyfa við Hringbraut nema það sé ríkur skilningur um það hjá helstu fagaðilum að betra sé að byggja annars staðar. Þangað til verður ekki hreyft við Hringbraut. Hringbraut þarf að byggjast upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)