148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

(Forseti (SJS): Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson telur að hann hafi beðið um orðið á eftir hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þar sem það skiptir augljóslega máli í stöðunni gerir nú grein fyrir atkvæði sínu hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson.)

Virðulegi forseti. Ég get gert grein fyrir atkvæði mínu hvenær sem er. Ég hefði gjarnan kosið á sínum tíma að farið hefði verið í staðarval og spítalinn byggður upp á öðrum stað, til að mynda þegar ég settist í ríkisstjórn 2013. Þá höfðu formaður Framsóknarflokksins, núverandi formaður Miðflokksins, og reyndar forsætisráðherra tök á því að beita ríkisstjórninni í þá átt. Það er augljós hringlandaháttur í anda Trumps að koma hér fimm árum síðar og í anda Trumps að koma með tillögu um staðarval þegar menn gerðu ekkert í því (Forseti hringir.) meðan þeir gátu, í heil fimm ár. Þess vegna segi ég nei við tillögu um staðarval. (Forseti hringir.) En við þurfum að fara í undirbúning að staðarvali fyrir nýjan spítala (Forseti hringir.) vegna þess að spítalar sem eru byggðir í dag endast í 20 ár. Það er ekki seinna vænna að fara að undirbúa það.