148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[22:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vona að þótt virðulegur forseti sé skemmtikraftur til viðbótar við að stýra þinginu þá skilji hann hvers vegna mikilvægt var að hafa hlutina hér í réttri röð. Það er della sem hæstv. samgönguráðherra leyfði sér að fara með, að halda því fram að í ríkisstjórn sem hann átti sæti í hafi ekki verið unnið að því að gera breytingar á þessu máli, bæði innan ríkisstjórnarinnar og opinberlega. Það lá meira að segja fyrir þegar fram kom þingsályktunartillaga frá þáverandi minni hluta um að byggður skyldi nýr Landspítali við Hringbraut að við féllumst ekki á þá tillögu. Við, og þar með talinn hæstv. núverandi samgönguráðherra, lögðumst gegn því. Við féllumst ekki á tillöguna og kröfðumst þess að henni yrði breytt, enda var þá unnið að því að Landspítali yrði byggður á nýjum stað. Hvað gerðist svo í kosningum 2016 og 2017? Hver var stefna Framsóknarflokksins þá? Meginatriði í stefnu Framsóknarflokksins í þeim kosningum, löngu seinna en 2013, var hvað? Að byggður skyldi nýr Landspítali á (Forseti hringir.) nýjum stað. (Samgrh.: Við fengum ekki meiri hluta.)