148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Rétt eins og fram hefur komið í umræðum í þinginu kom málið vissulega seint inn og hefur verið fjallað um hverjar ástæður þess eru. Ég held hins vegar að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi lagt mjög mikla vinnu í að fara yfir málið og yfir þau álitaefni sem raunverulega var tilefni til að skoða, meta þau og eftir atvikum gera breytingartillögur. Það er mikil vinna sem liggur þar að baki sem skilar sér í því frumvarpi og þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir. Ég tek það fram að ég held að það sé afskaplega mikilvægt að málinu ljúki nú á þessu þingi, fyrir þinglok, ekki út af hagsmunum stjórnsýslunnar eða stjórnarflokkanna eða ríkisstjórnar eða neins slíks, heldur vegna þeirra hagsmuna fyrirtækja og stofnana hér á landi sem eiga í mjög víðtækum samskiptum við evrópskar stofnanir og fyrirtæki á sviði (Forseti hringir.) persónuupplýsinga. Ég held að þau vandræði sem hljótast myndu af því ef við tefðum þetta mál væru þess eðlis að við getum ekki leyft okkur annað en að klára þetta núna.