148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég mun greiða þessu máli atkvæði mitt, en ég get ekki verið á græna takkanum án þess að nota jafnframt tækifærið til að lýsa yfir miklum vonbrigðum og óánægju með vinnulag stjórnvalda í þessu máli og með þann fáránlega nauma tíma sem þingmönnum er veittur. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til þess að gera þetta verklag ekki að vana sínum. Það er ekki gott fyrir neinn, ekki fyrir þingið og allra síst fyrir þá sem við vinnum fyrir, íslenskan almenning.

Mig langar í leiðinni til að nota tækifærið og þakka nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að gera þetta þó þannig úr garði að hægt er að mynda sér skoðun á málinu með nægilega miklu öryggi til þess, a.m.k. fyrir mig, að vera á græna takkanum, í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem þar búa undir fyrir marga. Síðast en ekki síst vil ég þakka starfsfólki Alþingis á nefndasviði og öðru starfsfólki fyrir alveg ofboðslega mikla og ítarlega vinnu sem þau hafa lagt á sig undanfarið vegna þess hvernig málið hefur verið búið.

En áfram vil ég árétta mikla óánægju (Forseti hringir.) mína með þetta mál. Það geta alltaf komið upp undantekningar og menn geta alltaf lent í einhverri tímaþröng (Forseti hringir.) vegna einhverra aðstæðna. Þetta mál er einfaldlega ekki (Forseti hringir.) þannig. Það er ekki gott að nýta það svigrúm sem menn hafa (Forseti hringir.) í svona mál.