148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér höfum við enn eitt dæmið um hvers konar kerfisstjórn þetta er. Það liggur fyrir að með þessu máli, eins og ríkisstjórnin stillir því upp, erum við að afsala okkur valdi langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Hvenær sem þetta mál verður tekið fyrir, en ég tala ekki um núna að á árinu 2018 þegar við höldum upp á 100 ára fullveldisafmæli landsins, leggur ríkisstjórnin til að við séum að afsala okkur valdi sem örugglega, eins og rökstutt hefur verið, er umfram það sem stjórnarskráin heimilar. Þetta er rökstutt með því að við verðum bara að gera þetta af því að Evrópusambandið krefjist þess. Engu að síður notuðu menn ekki þau tækifæri sem gáfust til að aðlaga málið, notuðu ekki þau tækifæri sem gáfust til að breyta því og laga það að íslenskum aðstæðum, koma núna allt of seint með málið í (Forseti hringir.) tómum vandræðum og krefjast þess að við samþykkjum það af því Evrópusambandið ætlast til þess.