148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það gleður mig vissulega að heyra áhuga hv. þingmanna á því að ræða persónuverndarmál. Ég vil hins vegar nefna það vegna þess að mér hefur fundist menn svolítið þrástagast á málsmeðferðartímanum í málinu, sem ég hef vissulega viðurkennt að hefði mátt vera meiri fyrir þingið í ljósi umræðunnar um málið, að skýrt kom fram í framsögu minni við þetta mál og við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem málinu tengist að málið hefði ekki getað komið mikið fyrr inn í þingið. Það var algjör forsenda þess að ákvörðun eða drög að yfirlýsingu sameiginlegu EES-nefndarinnar lægi fyrir. Hún var ekki send til Evrópusambandsins fyrr en í mars og Evrópusambandið hefur ekki enn þá afgreitt málið formlega. Málið hefði því ekki getað komið hingað miklu fyrr.

Vegna ummæla hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að ekki hefði verið leitað hófanna um að fara aðra leið í innleiðinguna kom líka skýrt fram í máli mínu að það var einmitt gert. Reynt var til þrautar að fara aðra leið en þá leið sem hér er farin og reynt að halda til haga tveggja stoða kerfinu. Á það var ekki fallist, (Forseti hringir.) m.a. af samstarfsríki okkar í EFTA, Noregi.