148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekkert vafamál að einn af kostum samstarfsins um Evrópska efnahagssvæðið er að öll ríkin geti komið sér saman um mikilvæga löggjöf á sviði eins og þessu. Það er eitthvað sem allir ættu að sjá, ekki síst eftir umræðu undanfarinna mánaða þar sem unnið hefur verið á grundvelli nýrrar tækni og gagnasöfnunar með persónuupplýsingar með hætti sem almenningur er ósáttur við. Þess vegna er mjög mikilvægt að þingið bregðist við.

Það sem hefur hins vegar skort á í umræðunni á þinginu að mínu áliti er að það er alvarlegt fyrir okkur Íslendinga og Alþingi að sú staða geti komið upp að fyrirtæki á Íslandi og almenningur lendi í vandræðum vegna innleiðingar á Evrópulöggjöf áður en málið hefur verið afgreitt í sameiginlegu nefndinni, að við eigum í hættu á að lenda í verulegum vandræðum í samskiptum við önnur Evrópusambandsríki á Evrópska efnahagssvæðinu áður en málið hefur einu sinni verið afgreitt í sameiginlegu nefndinni. Það ætti að vera okkur til mikillar (Forseti hringir.) umhugsunar. Um það atriði verður áfram að fjalla og koma í veg fyrir að það geti endurtekið sig.