148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:53]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég harma það eins og fleiri hversu illa hefur verið unnið að þessu máli af hálfu ráðuneytisins. En um leið vil ég hrósa hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vel unnin störf og í rauninni nefndinni allri með formann í broddi fylkingar fyrir að bjarga þó ríkisstjórninni og ráðherrunum fyrir horn í þessu annars mikilvæga máli. Hægt var að koma með þetta mál miklu fyrr, eins og aðrar þjóðir gerðu, því að það er gríðarlega mikilvægt og stórt, eins og komið hefur fram hjá ýmsum hér, bæði fyrir almenning í landinu, en ekki síður varðandi fyrirtæki.

Síðan er náttúrlega mikil vinna fram undan. Það er víst fundur í næstu viku í stjórnarskrárnefndinni þar sem formenn allra flokka verða saman komnir. Þá ríður á að við þorum að ræða þau mál sem ýmsir hafa mikla fyrirvara og efasemdir um að við eigum sérstaklega að ræða, þ.e. einmitt framsalið eða fullveldisafsalið að hluta til, samningar um hvernig við eigum að taka þátt í alþjóðastarfi. Við eigum að geta gert það af sömu reisn og Norðmenn. Norðmenn hafa nú þegar ályktað um það hjá sér að EES-samningurinn eins og hann er núna brjóti í bága við norsku stjórnarskrána, og hafa þeir þó víðtækari heimildir í stjórnarskrá sinni. (Forseti hringir.) Hvað þá með hina íslensku? Það er því mikilvægt fyrir okkur, formenn stjórnmálaflokkanna, að horfast í augu við staðreyndir. Við þurfum að taka nákvæmlega þennan kafla upp (Forseti hringir.) í stjórnarskránni. Það verkefni bíður okkar. Þetta mál sýnir það meðal annars. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)