148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram styð ég þetta mál. Ég vildi hins vegar gera grein fyrir því atkvæði mínu að ég mun sitja hjá við afgreiðslu þessarar breytingartillögu vegna þess að mér finnst ekki hafa unnist nægilega mikill tími til þess að meta áhrifin af þessari breytingu. Mér finnst hún talsvert mikil breyting frá því sem var, þ.e. að núna falla látnir einstaklingar undir persónuvernd, en hér á að setja þá reglu að eftir fimm ár frá andláti þá geri þeir það ekki lengur. Mér hefur ekki fundist að sýnt hafi verið fram á það með fullnægjandi hætti að einhvers konar mat á áhrifum þessa ákvæðis hafi farið fram eða hvernig staðið sé gegn misnotkun slíkra upplýsinga ef einhverjar gætu orðið. Ég ætla því að leyfa mér að sitja hjá, herra forseti, við afgreiðslu þessarar tillögu.

Mér finnst fullt tilefni til að gera sérlög um meðferð þessara upplýsinga og hefðum við haft aðeins meiri tíma til að vinna þetta mál hefði mögulega verið hægt að finna aðeins betri lendingu. Ég gerði samt ekki athugasemd við að þetta yrði afgreitt svona frá nefndinni og mun ekki standa í vegi fyrir því, en vildi koma hingað upp til að árétta það að við þessa breytingartillögu sit ég hjá vegna þess að mér finnst þetta ekki fullunnið.