148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Aftur kem ég upp til að gera grein fyrir því að ég sit hjá við atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu. Hér á sú breyting sér stað að í stað þess að í frumvarpinu standi „lögbundin verkefni Alþingis“, þ.e. að löggjafarhlutverkið og fleiri lögbundin hlutverk Alþingis, komi, með leyfi forseta: „störf Alþingis og stofnana og rannsóknarnefnda þess“. Þetta er annað dæmi um eitthvað sem ég hefði viljað fá meiri tíma til að vinna. Ég geri mér grein fyrir því að við myndum þurfa að taka afstöðu til þess hvort þá féllu ýmis önnur störf þingsins undir upplýsingalög og undir stjórnsýslulög og það ætti kannski að skoða allt saman saman en mér finnst í ljósi þess að við höfum haft tvö ár til að undirbúa okkur fyrir akkúrat þessa reglugerð að við hefðum mátt gera það talsvert fyrr og vera búin að taka afstöðu til þess. Ég velti fyrir mér hvers vegna stjórnsýsla þingsins ætti að vera undanskilin. Ég sé ekki rökin fyrir því. En ég vil enn og aftur ekki standa í vegi fyrir því, vegna þess að komið var til móts við þær áhyggjur sem ég hafði, þannig að ég sit hjá.