148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu við þessa breytingartillögu og kannski sérstaklega gera forseta grein fyrir þeim ábendingum sem koma fram í nefndaráliti því tengdu. Alþingi er að ganga í gegnum mikinn breytingafasa varðandi tilkall almennings til upplýsinga um störf okkar. Við erum nýbyrjuð að birta tilteknar upplýsingar um kostnaðargreiðslur og sú þróun á eftir að halda áfram. Því að undanskilja Alþingi allt saman persónuverndarlöggjöfinni á þessum tímapunkti fylgir ákall um að forseti setjist niður og greini það hvaða hlutar starfseminnar eigi að heyra undir persónuverndarlöggjöfina og þá væntanlega á sama tíma undir stjórnsýslulög og upplýsingalög, til þess að það sé alveg á hreinu hvar almenningur eigi fullt og óskorað tilkall til upplýsinga um störf okkar. Þetta er tímabundin ráðstöfun sem ég styð glaður.