148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:12]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Margt má segja um þetta mál. Það er náttúrlega hjákátlegt að hafa setið fundi í atvinnuveganefndinni núna eftir að meiri hluti nefndarinnar á fundinum þar áður, fyrir 2. umr., þvingaði fram ákveðna málamiðlun sem hægt var að fella sig við og fékk hluta úr stjórnarandstöðunni til þess að vera á því máli, en svo er sú tillaga kölluð til baka. Ég hélt í einfeldni minni, eins og ég gat um áðan, að það væri til þess að styðja einfaldlega við frumvarp hæstv. landbúnaðarráðherra. En það var nú aldeilis ekki, heldur var farin eins ýkt leið og hægt var og lokað fyrir allar glufur, hvað þá að gefa frjálslyndinu tækifæri, sú leið var farin sem hefur í för með sér að sú opnun sem meiri hluti atvinnuveganefndar talaði fyrir árið 2016, að lokað var fyrir þá opnun, þ.e. að auka magnið í tonnum varðandi tollkvótana.

Ég hélt líka á þeim fundi að meiri hluti nefndarinnar, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Vinstri græn, Framsóknarflokkur og ekki síst Sjálfstæðisflokkur — sem getur ekki lengur kennt sig við frelsi og frjálslyndi, það er alveg ljóst með hverju málinu á fætur öðru sem afgreitt er hér í þingsal — myndi leggja fram nýjar upplýsingar, einhver ný gögn. Nei, einmitt, það er alveg hárrétt, menn hrista hér höfuðið og segja: Nei, það voru ekki lögð fram nein ný gögn, ekki eitt einasta skjal. En hvað kemur í ljós á fundinum? Miklar hringingar höfðu verið úr Norðausturkjördæmi. Búinn að vera mikill þrýstingur af hálfu hagsmunaafla á milli umræðna.

Þetta var mál sem við ræddum fyrr í vetur, og þá var það ekki tiltökumál að nefndin myndi flytja það. Svo varð málið bara svo gott að hæstv. ráðherra treysti sér sjálfur til þess að flytja það, af því að málið var gott í sjálfu sér, fyrir neytendur, bændur, fyrir íslenskt samfélag sem hefur trú á alþjóðasamskiptum og samvinnu og hvað þá að standa við samninga eða meiri hluta nefndarálita sem eru samþykkt með einhverjum tilgangi rétt fyrir kosningar. Þess vegna tók ráðherra þetta mál af því að málið var gott.

Ég hélt satt best að segja, ég hef sagt það áður, að menn væru tilbúnir til að opna þessa pínulitlu glufu frjálslyndis, frelsis, traust á neytendunum, aðeins ýta við því, en þeirri glufu var lokað og hnýtt fyrir og það kirfilega. Ekki bara að fara með málamiðlunina, sem einn hv. þingmaður í meiri hlutanum beitti sér fyrir og hægt var með semingi að samþykkja, um tvö árin, nei, öllu heila klabbinu var bara ýtt aftur í fjögur ár. Alltaf þegar reynir á að taka afstöðu með frelsinu, frjálslyndinu, þá er þingheimi hent í afturhaldið, íhaldssemina, stöðnunina. Ekki hafa traust á því að breytingar séu aflvaki framfara, aflvaki fyrir nýsköpun, aflvaki fyrir það að við þróum okkur hér áfram. Það höfum við séð gerast í öðrum málum, öðrum atvinnugreinum og öðrum greinum innan iðngreinanna sem stóðu frammi fyrir því að opnað var á það í ljósi alþjóðasamskipta og trú á frelsi og markaðinn. Þá var opnað fyrir alþjóðaviðskipti.

Árið 1972 þegar við gerðumst aðilar að EFTA voru háværar raddir um að t.d. íslenski sælgætisiðnaðurinn myndi leggjast af, bara algjörlega með tölu og öll þau störf sem þar voru. Hvað gerðist? Sælgætisiðnaðurinn íslenski umbreyttist. Hagræðing átti sér stað innan greinarinnar og meiri fjölbreytni í vörum var sett á markaðinn. Til hagsbóta fyrir hverja? Kannski aðeins líka fyrir tannlækna, nei, ekki síst fyrir neytendur sjálfa. Íslenska vöruúrvalið batnaði.

Ég fullyrði að þrátt fyrir opnun fyrir erlendar vörur í innflutningi hingað til landsins þá batnaði markaðurinn fyrir íslenska neytendur, fyrir Íslendinga. Að vera hluti af alþjóðaheiminum þýðir að umhverfi okkar Íslendinga batnar, það versnar ekki. Það á við um alla, hvort sem það eru neytendur, bændur eða aðrir, af því að dæmin sýna það. Hér hefur hæstv. samgönguráðherra talað um trumpisma. Já, trumpisminn ríður hér röftum. Það er ríkisstjórnin sem hefur forgöngu um það að innleiða trumpisma.

Þetta er rétt byrjunin spái ég, því að við erum að heyra það núna í öðru máli að í stað þess (Forseti hringir.) að taka undir það að við eigum að standa við alþjóðasamninga okkar, þá er frekar talað um að (Forseti hringir.) segja eigi upp samningum. Mikilvægasti samningurinn sem við höfum undirritað er EES-samningurinn.

Ég er rétt að byrja. Þetta var (Forseti hringir.) fyrsta ræðan um þetta mál.