148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:18]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar málið var afgreitt úr nefnd í 2. umr. var það minn skilningur að komið væri samkomulag um að afgreiða það með þeim hætti sem þá var talað um, að komið yrði til móts við áhyggjur með því að afgreiða málið á tveimur árum, í tveimur hollum þar sem væru 110 tonn af ostum í hvoru hollinu. Það væri málamiðlun sem allir gætu sætt sig við.

Ég var reyndar ekki sérstaklega sáttur við þá málamiðlun vegna þess að mér fannst frumvarpið í sinni upprunalegu mynd alveg fínt, að opna á frekari innflutning á ostum vegna þess að það er það sem neytendur vilja, að hafa greiðan aðgang að góðum matvælum hvaðan sem þau koma. Auðvitað ættum við á sama tíma að vera að bjóða neytendum úti í heimi, hvort sem það er í Evrópusambandinu eða annars staðar, upp á góðar íslenskar mjólkurafurðir í leiðinni. Þetta er eitthvað sem er í þróun. Þetta er að gerast. Þetta gerist hægt að vísu, en þetta er að gerast. Það er eitthvað sem ætti auðvitað að spýta í lófana með og veita því aðeins meiri athygli að selja vörur okkar til Evrópu en að vera alltaf í einhverju Brexit-standi.

Gott og vel. Þetta samkomulag var lagt fyrir og ég var beinlínis neyddur til þess að taka þátt í því og skrifa undir nefndarálit vegna þess að ef ég gerði það ekki þá væri samkomulagið upp í loft. Ég var ekkert sérstaklega sáttur, en ég gerði það með þeim fyrirvara sem ég gerði. Mér fannst það skárra en að hleypa öllu í uppnám. Mér fannst það heiðarlegt. Mér fannst það vera ágætisniðurstaða. Og það áttu allir að vera sammála því.

Síðan kemur allt í einu einhver skipun úr ráðuneytinu um að sú breytingartillaga muni ekki geta gengið. Hún var dregin til baka. Inn kemur ný breytingartillaga sem fellir út helminginn af frumvarpinu. 1. gr. með öllu og meira að segja að svo miklu leyti að ekki er einu sinni hægt að viðhafa sama titil á frumvarpinu, það þarf að fjarlægja orðin „upprunatengdir ostar“ úr titlinum. Vegna þess að það er ekki lengur um upprunatengda osta að ræða.

Herra forseti. Það er óforskammað að viðhafa svona vinnubrögð og er nefndinni til niðrunar. Mér finnst sárt að sjá þessa niðurstöðu vegna þess að þetta er verri niðurstaða fyrir neytendur. Þetta er verri niðurstaða fyrir frjálslynd viðskipti í heiminum. Það eru ótrúlega léleg vinnubrögð hjá nefndinni að ákveða þetta upp úr þurru án nokkurra gagna, án nokkurrar umræðu, án nokkurrar skynsemi. Síðan er náttúrlega það sem er kannski sárast í þessu, þetta grefur undan trausti. Málið var ekki í þingflokkasamningapakkanum af því að sátt var komin í málið. Auðvitað hefði fólk viljað gera þetta öðruvísi ef skilningur hefði verið á því að einhvers konar boð kæmi frá ráðuneyti hæstv. ráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar um að það ætti að breyta öllu á síðustu stundu þegar allt annað væri nokkurn veginn komið í gegnum þingið. Þetta er til þess fallið að valda því að í framtíðinni, t.d. næsta haust, þegar þinglokasamningar koma á borðið hjá okkur þá getum við ekki gengið út frá neinu vísu, við getum ekki treyst því að ríkisstjórnin og meiri hlutinn muni standa við nokkurn skapaðan hlut vegna þess að breyta þurfti þessu örlitla atriði núna.

Þetta er lítið atriði. Það er spurning um að gera hlutina á tveimur árum eða fjórum. Þetta er ekki einu sinni neitt rosalega mikið af osti sem um ræðir. Þegar allt kemur til alls verða þetta 230 tonn í ostaneysluumhverfi sem hljóðar upp á þúsundir tonna. Í alvöru talað, er virkilega verið að fórna þetta miklu trausti fyrir þennan litla ávinning? Þetta veikir tiltrú á ferlið. Þetta veikir tiltrú okkar í stjórnarandstöðunni á að geta treyst stjórninni. Það hefur verið þrátt fyrir allt mjög gott samráð og mjög góð samstaða í mörgum málum, en við getum ekki leyft okkur að treysta stjórnarandstöðunni ef farið er svona að. Þetta veldur mér miklum áhyggjum.

Við eigum að gera þessa hluti miklu betur og skynsamlegt núna væri auðvitað að fella breytingartillögu meiri hlutans í málinu. Það væri fyrsta skrefið. Annað skrefið væri hreinlega að meiri hlutinn bæði minni hlutann afsökunar til að farvegur yrði alla vega til að undirbyggja traust. Ef þetta fer í gegn er það í bullandi ósætti því að (Forseti hringir.) svikist var um hluti sem voru algjörlega skýrir þar til fyrir nokkrum klukkutímum.