148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:23]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Rétt áðan vorum við að samþykkja að innleiða ný persónuverndarlög, GDPR, sem ganga m.a. út á að notendur á félagsmiðlum og öðru slíku séu ekki til sölu. Þeir séu ekki eign fyrirtækjanna. Neytendur séu ekki eign sem megi ganga kaupum og sölum. Af hverju lítum við enn þá á aðra neytendur sem fara út í búð og kaupa vörur sem eign mjólkurframleiðenda eða eign kjötframleiðenda? Við erum ekki eign, við erum manneskjur og höfum rétt á valfrelsi. Það hefur enginn rétt á að segja mér hversu mörg hundruð tonn af osti ég má kaupa og hvort ég megi borða hann eða ekki, né hvers konar osta. Þetta er algerlega fáránlegt.

Til að undirstrika hversu fáránlegt dæmi þetta er ætla ég að koma hérna með absúrd dæmi. Segjum sem svo að Rithöfundasamband Íslands væri með álíka viðtök og bændur á Íslandi. Það gæti þá tekið upp á því að segja: Við viljum setja á ákveðna þýðingarkvóta og banna innflutning á þýddum skáldverkum. Eigum við að fara að reikna út hversu mikið Andri Snær Magnason tapaði á Harry Potter? Eða eigum við kannski að gera ráð fyrir því að ef við hefðum bannað þýðingar á erlendum skáldverkum hefði hreinlega dregið úr lestri almennt? Því að það merkilega við samkeppni er nefnilega að samkeppni eykur oft á neyslu. Ef við viljum selja osta eigum við að leyfa sölu á öllum ostum og eins mikið af osti og mögulegt er. Það er bara almenn skynsemi. Fólk sem stendur í vegi fyrir því stendur í vegi fyrir sjálfsögðum framförum, stendur í vegi fyrir frelsi. Það er fáránlegt að reyna að tefja þessa sjálfsögðu framþróun um fjögur ár eða hvað sem fólk lætur sér detta í hug. Heldur það í alvöru talað að það geti stoppað þetta?

Við horfum upp á Trump hinum megin reyna að loka á og berja niður alþjóðaviðskipti. Við vitum að þetta er töpuð barátta hjá honum. Menn snúa ekki við þessum hjólum, því að alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti eru þrátt fyrir allt framtíðin. Það er í þeirri framtíð sem velmegun hefst, sem frelsið er. Það er í þeirri framtíð sem ég myndi heldur vilja búa.

Og ég get bara sagt þingheimi að ef við myndum loka okkur alveg af, loka á alla valmöguleika, myndi það eina gerast að neytendurnir myndu neita að vera eign og hreinlega flytja til Noregs eða einhvers annars lands þar sem valmöguleikarnir væru fleiri. Ég get bara sagt að leiðin til að styrkja innlenda framleiðslu er einmitt að styrkja hana með jákvæðum hætti, enda er það þess vegna sem við styrkjum rithöfunda, við bönnum ekki Harry Potter.