148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Mér finnst menn ræða um þetta mál eins og hér sé verið að boða einhvern haftabúskap. Það er náttúrlega eins og hver önnur della. Ef við ætlum að mæla frjálslyndi og frelsi á mælikvarða þess hversu opin viðskipti við höfum við önnur lönd stöndum við eiginlega betur að vígi en flest önnur ríki, m.a. ríki Evrópusambandsins. Ætli við getum ekki hreinlega haldið því fram að við séum með frjálslyndari löggjöf þegar kemur að innflutningi á landbúnaðarvörum en Evrópusambandið?

Sá tollasamningur sem við höfum verið að tala um í kvöld og fyrr í dag er auðvitað þannig að verið er að auka frelsið, ekki takmarka það. Það er ekki verið að koma í veg fyrir innflutning eða minnka hann. (Gripið fram í.) Nei. Það er þvert á móti. Miðað við tollasamninginn er verið að fjórfalda magnið á þessu ári. Og á fjórum árum ellefufalda það. Það kann vel að vera að mörgum finnist það lítið en það er nú töluvert samt.

Þegar atvinnuveganefnd, meiri hluti atvinnuveganefndar, lagði til í ágúst 2016 að við myndum innleiða tollasamninginn við Evrópusambandið hraðar en um var samið, þ.e. á einu ári, var gengið út frá einni forsendu. Hún var sú að gagnkvæmni væri í viðskiptum. Það er náttúrlega það sem við gerum kröfu til, að það sé gagnkvæmni í viðskiptum milli okkar og annarra landa. Fríverslunarsamningar byggja einmitt á gagnkvæmni. Við erum að opna á viðskipti, gagnkvæm viðskipti.

Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar undir lok ágúst, og nokkrum vikum síðar var síðan kosið, ef ég man rétt, kemur fram að nefndin leggi þetta til, að við reyndum að hraða þessu. Um það var samstaða. En um leið var þeim tilmælum beint til landbúnaðarráðherra að aðgangsheimildum á innri markað Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir verði einnig hraðað eins og mögulegt væri, þ.e. mjólkurafurðir okkar. Og var skyrið þar kannski efst á blaði.

Landbúnaðarráðherra var falið þetta. Kannski vegna kosninganna gerðist ekkert það sem eftir lifði ársins 2016. En menn höfðu þó tíma til að hefja að minnsta kosti vinnuna við að tryggja gagnkvæman aðgang Íslendinga að markaði Evrópusambandsins þegar kæmi að mjólkurafurðum allt síðastliðið ár. Það var ekki gert. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fór engin slík vinna af stað í landbúnaðarráðuneytinu 2017.

Þannig að það var nú ekki meiri áhugi á síðasta ári í ríkisstjórn eða í þessum sal en svo að ekki var talið þess virði að reyna að hefja viðræður og undirbúa að tryggja að gagnkvæmni myndi ríkja í samskiptum við Evrópusambandið þegar kæmi að þessum tollasamningi. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga.

Frú forseti. Við getum vissulega haldið áfram að ræða almennt um stefnu okkar þegar kemur að landbúnaðarmálum. Það er ýmislegt (Forseti hringir.) sem þar er að. Ég hef t.d. verið einn þeirra sem hafa gagnrýnt þann búvörusamning sem gerður var árið 2016 vegna þess að ég tel að hann þjóni hvorki (Forseti hringir.) bændum né neytendum. Þess vegna er hv. þm. Haraldur Benediktsson í því verkefni að endurskoða búvörusamninginn.

(Forseti (BrH): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann.)