148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:35]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Við skulum hafa það hugfast að uppruni þess að flýta ætti innleiðingu þessa máls kemur m.a. frá afgreiðslu meiri hluta atvinnuveganefndar frá árinu 2016. Þá var allt upp í loft út af búvörusamningum sem menn höfðu ekki unnið nægilega vel að, menn höfðu ekki fengið nægilega mikla samstöðu, unnið að þeirri samstöðu inni á þingi, hvað þá úti í samfélaginu, og stutt var í kosningar. Þá var brugðið á það ráð af hálfu m.a. Sjálfstæðismanna í nefndinni, af því að menn áttuðu sig á mjög alvarlegri stöðu málsins, að ná þyrfti meiri sátt um þetta mikilvæga mál, um mikilvægi búvörusamninga sem eru gríðarlega þýðingarmiklir fyrir bændur sem og neytendur í landinu, að þeir séu vel gerðir og sátt ríki um þá. En um aðferðafræðina ríkti ekki sátt. Þess vegna var það sett inn í meiri hluta atvinnuveganefndar á sínum tíma að flýta ætti innleiðingunni, sem nemur einmitt þessi 230 tonnum af sérostum og fleira til að koma til móts við þau sjónarmið sem voru viðhöfð þá. Þetta er mál sem til að mynda núverandi þingmenn í Suðvesturkjördæmi, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, flögguðu mjög í kosningabaráttunni 2016, að þeir hefðu náð gríðarlegum árangri til að opna frekar á frelsi. Verið væri að koma til móts við neytendur.

Þegar þetta mál kemur til umfjöllunar núna var eðlilegt að atvinnuveganefndin myndi bara flytja málið til að ýta því áfram. Ég hélt einfaldlega í einfeldni minni að samstaða ríkti um það, og það mikil samstaða að ráðherra vildi taka málið upp sjálfur og flytja það. Síðan kemur eitthvert babb í bátinn, það eru einhverjar vöflur á mönnum, sérstaklega virtist það vera á Framsóknarflokknum í ríkisstjórn, þó að þeir séu fleiri, en aðallega þessum Framsóknarflokki sem var á sínum tíma með landbúnaðarráðuneytið.

Ég virti það vel við einn hv. þingmann, Kolbein Óttarsson Proppé, sem vann að ákveðinni málamiðlunartillögu sem fleiri gætu lifað með. Mér fannst hún þrengja málið, en gott og vel, við að koma til móts við Framsóknarflokkinn. Ég hafði ekki hugmyndaflug í það. Ég hafði bara ekki hugmyndaflug í það að Sjálfstæðisflokkurinn myndi stökkva á þann vagn og vera harðari í kröfum sínum eftir alla forsöguna, eftir að hafa verið að hreykja sér af því að hafa náð ákveðnum árangri 2016. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að það væri Sjálfstæðisflokkurinn sem berðist harðast fyrir því að hafa gildistökuna þannig að hún yrði að fjórum árum, þ.e. að innleiðingin myndi taka þessi fjögur ár. Gott og vel. Þetta er komið á blað. Menn vita af þessu.

Síðan koma menn hingað upp og segja að þessi og hinir megi ekki tala um frelsið og þetta sé svona eða hinsegin. Gott og vel. Við höfum staðið frammi fyrir fullt af prófsteinum. Einn er sá t.d. sem mér þætti vænt um en hef engan stuðning fengið við, ekki frá ríkisstjórnarflokkunum og allra síst Sjálfstæðisflokknum, í þá veru að innleiða almenn samkeppnislög um mjólkuriðnaðinn. Hafa verið undirtektir í þá veru að íslenski mjólkuriðnaðurinn, sem er í mikilli sókn, minnst var á Rússland rétt áðan — þarf hann á þessum hömlum að halda? Þarf Mjólkursamsalan að vera sá einokunaraðili sem hún er í dag? Eigum við ekki að leyfa fleiri litlum sprotum, sem eru að byrja að ná að festa rætur hér, að fá aðeins meira svigrúm núna með því að láta almenna reglu samkeppnislaga gilda? Trúa aðeins á að frelsi og samkeppni færi okkur eitthvað lengra? Þetta verður prófsteinn á næsta vetri því að enn og aftur er verið að svæfa málið í nefnd, því að við í Viðreisn lögðum fram tillögu þess efnis, en hún hlaut ekki hljómgrunn. Enn eitt tækifærið fyrir þá sem eru eða hafa talið sig frelsis- og samkeppnisunnendur. En þeir falla á hverju prófinu á fætur öðru.

Síðan er hitt, og það er líka bara lexía sem ég sjálf tek — það er náttúrlega bara ágætt þrátt fyrir að vera reynslubolti hér á þingi — inn í samningaviðræður sem verða við stjórnarmeirihlutann á næsta ári. Ég held að það verði þannig að maður hugsi sig um að biðja um allt skriflegt eftirleiðis frá stjórnarmeirihlutanum. Ef ekki er minnst eða bent á ákveðin mál sem maður treystir að fari í gegn með þeim hætti sem búið er að leggja fyrir, ef maður bendir ekki á þau þá á maður á hættu að stjórnarmeirihlutinn komi og tvisti þau, breyti þeim og komi síðan í bakið á okkur sem treystum því og trúum að þau sé komin í ákveðinn farveg.

Mér finnst ekki myndarbragur á þessu. Mér finnst enginn bragur á þessu. Mér finnst enginn bragur á því að meiri hluti atvinnuveganefndar komi núna á milli 2. og 3. umr. með (Forseti hringir.) engin gögn og dragi til baka allar tillögur, sem eru þó til bóta, og setji fram þá tillögu að seinka innleiðingu eða hægja á innleiðingu varðandi þennan annars mikilvæga samning. (Forseti hringir.) Mér finnst það miður og ég harma þessi vinnubrögð.