148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að fara yfir það hvernig samningarnir hafa verið og hvers vegna mér sýnist meiri hlutinn vera að fara á svig við þá samninga sem hafa náðst, sem hafa þó verið einir þeir farsælustu sem ég hef upplifað á þessu þingi. Ég hef ekki verið hér lengi en hef upplifað marga svona samninga, þeir eru a.m.k. tveir á ári. Sá forseti sem hefur sinnt þessu hér hefur gefið gott svigrúm til að þingflokksformenn og formenn hafi getað sest niður og rætt sig niður á niðurstöðu. Nefndirnar hafa fengið gott svigrúm til að vinna inn á milli til að klára og lenda málum í sátt og það hefur tekist tiltölulega vel.

Það sem er aftur á móti að gerast núna er að í þessum samningum var lagt af stað með það hvaða málum menn vilja flagga, þ.e. um hvaða mál menn segja: Þetta getur ekki farið í gegn svona, og þá setjast menn niður og reyna að finna einhverja lausn, finna einhverja lendingu sem allir geta sætt sig við. Viðreisn ákvað að flagga ekki þessu máli af því að hún treysti því, og Píratar líka, að þær breytingartillögur sem voru komnar fram og gerðu málið betra myndu halda. Nú er sagt: Þar af leiðandi var ekkert undir í samningunum. En það þýðir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi áðan, að þá verði öll mál að vera undir því að þá er ekki hægt að treysta að meiri hlutinn breyti ekki málum eftir á, málum sem eru á ákveðnum stað með breytingartillögum frá meiri hlutanum, eftir að samningar hafa náðst og segi: Nú tökum við þessa breytingartillögu sem gerði málið gott og breytum málinu á þann hátt sem við vitum að þið hefðuð ekki getað sætt ykkur við þegar samið var.

Það gengur ekki. Ég myndi segja að þetta væri á mjög gráu svæði þegar kemur að því að semja við fólk.

Þetta þýðir, eins og Þorgerður Katrín nefndi, að næst verður allt undir. Það er ekki hægt að treysta því að þau mál sem við flöggum og er samið um standi af því að stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að fara þá leiðina að breyta máli eftir á þannig að þau fari á þann veg sem sé klárlega eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við.

Þetta er það sem ég vildi fara yfir og skjalfesta hér hver staðan væri í þessu máli. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst. Nú vantar klukkuna korter í 12, þinglok eiga að vera einhvern tímann á eftir og núna á síðasta klukkutímanum eða síðustu tveimur er verið að breyta málinu. Meiri hlutinn kippir til baka sínum breytingartillögum, sem hann hafði lagt fram sem gerðu málið gott, og gerir málið slæmt. Þetta er siðferðislega ekki á mjög háu plani. Þetta er mjög grátt varðandi samningaviðræður. Við getum ekki sætt okkur við að semja svona í framtíðinni þannig að framvegis verður allt skriflegt.

Hvers vegna gerist þetta? Maður hefur heyrt ýmsar sögur um það sem ég ætla ekki að fara yfir en svona samningaviðræður munum við ekki sætta okkur við þegar aftur kemur að því að fara að semja um mál þegar þing kemur aftur saman.