148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa menn talað um mjög mikilvægt mál, viðskiptafrelsi. Það verður að segjast eins og er að sá sem kemur hingað og vænir Sjálfstæðisflokkinn um að hafa ekki staðið fyrir slíku er vægast sagt á miklum villigötum. Við skulum bara vitna í staðreyndir, ekki eitthvert hjal út í loftið. Hverjir stóðu fyrir því að Ísland gengi í EFTA? (Gripið fram í: Alþýðuflokkurinn.) Alþýðuflokkurinn, já. Alþýðuflokkurinn var smáflokkur, virðulegi forseti, og hann gat ekki gert neitt slíkt á sínum eigin verðleikum. EES? (Gripið fram í: Alþýðuflokkurinn.) [Hlátur í þingsal.] Já, já, virðulegi forseti, það er ágætt að vita af því að flokkur sem var með rétt rúmlega 10% hafi gert þetta allt saman, en það virkaði ekki alveg þannig. Það voru Sjálfstæðismenn sem höfðu forgöngu um það.

Reyndar er stóra málið sem gerir það að verkum að við Íslendingar erum með 90% tollfrelsi meðan t.d. Evrópusambandið er með 26% það að Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér í samvinnu við Framsóknarflokkinn fyrir því að afnema tolla og vörugjöld. Það þýðir að ef við færum í Evrópusambandið færum við úr 90% tollfrelsi í 26%. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Menn geta haft allar skoðanir á því hvernig að þessum málum er staðið, en ef menn eru sammála um að tollasamningur sé leið til frelsis í viðskiptum, sem ég held að sé rétt, má spyrja: Hverjir gerðu þann samning? Það var í tíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Stendur til að gera eitthvað annað en að standa við þann samning? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það sem var hins vegar ákveðið, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, var að fara út í ákveðnar mótvægisaðgerðir og flýta þar af leiðandi innleiðingunni varðandi innflutning á ostum og það er ekkert lítil aukning. Innflutningurinn fer úr 100 tonnum í 610 tonn í heildina. Breyting á sérostum var úr 20 tonnum í 210, hvorki meira né minna.

Það þurfti að vinna ákveðnar mótvægisaðgerðir ef átti að fara eftir áliti þingsins. Það var á borði hæstv. landbúnaðarráðherra. Það sem snýr að utanríkisráðuneytinu sem við höfum þurft að sinna, og höfum að sjálfsögðu gert þegar við höfum fengið eitthvert erindi þar um, var að reyna að semja við Evrópusambandið um að flýta líka innleiðingu þeim megin. Evrópusambandið er mjög harðdrægt og við höfum þurft að hafa fyrir því.

Engin slík beiðni kom fram Ég er búinn að láta kanna það í mínu ráðuneyti. Ég kannaðist ekki við málið þegar það kom upp í dag og ekkert slíkt kom fram.

Þegar hv. þingmenn segjast tala fyrir viðskiptafrelsi og gagnrýna á sama tíma núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að vera í svokölluðu Brexit-standi, eins og hv. þm. Smári McCarthy sagði, í staðinn fyrir að einbeita sér að því að selja til Evrópu er rétt að benda á að síðast þegar ég vissi var Bretland í Evrópu og reyndar stærsti markaður okkar í Evrópu. Í báðum þeim ríkisstjórnum sem ég hef setið í hefur verið algjör samstaða um að setja í forgang að sjá til þess að við gætum áfram selt á þann markað. Síðan höfum við farið í miklar breytingar á utanríkisþjónustunni og komið með frumvarp um Íslandsstofu til að halda áfram að selja líka til annarra ríkja Evrópu sem er afskaplega mikilvægt.

Ég vildi koma þessu hér fram vegna þess að sama hvað mönnum finnst um hvernig menn vinna þessi mál núna hér, og það má örugglega gagnrýna það, skulum við fara rétt með þegar við tölum um viðskiptafrelsi. Ef menn eru í alvöru talsmenn viðskiptafrelsis skulu menn styðja það alla leið en ekki vera að þvælast fyrir í málum sem ganga út á að styrkja stöðu okkar sem útflutningsþjóðar sem er afskaplega mikilvægt.

Virðulegi forseti. Ég vona að niðurstaðan sé sú að við séum fylgjandi viðskiptafrelsi. Við þurfum hins vegar að horfast í augu við það að ef við ætlum að ná inn á aðra markaði þurfum við oft og tíðum að semja við aðrar þjóðir, í flestum tilfellum, og ríkjabandalög. Við vitum að Evrópusambandið er mjög harðdrægt þegar kemur að (Forseti hringir.) slíkum samningum.