148. löggjafarþing — 79. fundur,  12. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[23:55]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra ætti frekar að nýta tíma sinn og pólitísk tengsl til að hafa uppi á íslenskum ríkisborgara sem er horfinn í Norður-Sýrlandi, mögulega af völdum tyrkneska hersins. Vonandi getur hann nýtt sín góðu tengsl við Erdogan og vini hans.

Hann ætti að sleppa því að grafa undan arfleifð Alþýðuflokksins sem er svo sannarlega miklu merkilegri hreyfing en Sjálfstæðisflokkurinn hefur nokkurn tímann verið, enda var fólk þar með einhverja sýn og hugrekki til að stefna að en Sjálfstæðisflokkurinn minnir alltaf frekar á stóra sauðahjörð sem fylgir einum forystusauð.

Menn tala hérna um frelsi. Ég held alveg að menn hafi viljað ganga lengra, það er ekki það, en þá hefur bara skort hugrekki og núna draga þeir lappirnar, snúast í hringi og ganga á bak orða sinna. Það er eiginlega fyndið að fylgjast með því og fyndið að heyra menn bregðast við, maður heyrir ef maður hefur hitt á einhverja viðkvæma taug þegar þeir tala um það.

Annars verð ég að segja að ég hef upplifað á þessum eina degi mínum í þinginu að það eru ýmsar brotalamir í þessu starfsumhverfi og mér þykir það leitt. Það ríkir greinilega ekki traust og ekki algjör heiðarleiki. Ég hef séð þingmenn úr ýmsum öðrum flokkum mjög leiða og bitra yfir því. Mögulega er hluti af þessari súru stemmningu sá að það eru fjórir framsóknarflokkar á þinginu en einn af þeim fær af einhverjum ástæðum ekki að vera með í stjórn og það er mesti framsóknarflokkurinn um leið. Ég skil það eiginlega ekki.