148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[00:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Miðflokkurinn styður breytingartillögu meiri hlutans um að 1. gr. falli brott. Við fögnum þeim sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar og að hún sé loksins að átta sig á því hversu skaðlegur þessi tollasamningur er íslenskri búvöruframleiðslu. Miðflokkurinn er á móti tollasamningnum og við viljum segja honum upp. Það hefur komið fram. Við höfum flutt þingsályktunartillögu þess efnis. Og við óskuðum eftir sérstakri umræðu um þennan samning hér í þingsal. Við viljum segja honum upp vegna brostinna forsendna og samráðsleysis við hagsmunasamtök bænda í málinu og auk þessa fór engin greining fram á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Myndi 1. gr. frumvarpsins ekki falla brott hefðu á næstu átta mánuðum eða svo tollkvóti fyrir sérosta ellefufaldast, úr 20 tonnum í 230 tonn.

Fram kom hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni áðan að sérostaframleiðsla á Íslandi er um 240 tonn. Þeir eru framleiddir í Búðardal. Þar starfa 25 manns. — Hv. þm. Smári McCarthy hefur misskilið þetta áðan þegar hann talaði um þúsund tonn. En við sjáum hvaða áhrif þetta hefur á íslenskan markað. Þetta kippir algjörlega fótunum undan íslenskri sérostaframleiðslu. Með frumvarpinu, eins og það kom fyrst fram, var ríkisstjórnin að ganga lengra en Evrópusambandið fór fram á án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Þessi endalausa undirlátssemi í garð Evrópusambandsins er óþolandi.

Þegar tollkvótinn hefur náð umsömdum 230 tonnum þá nemur magnið 95% af allri sérostaframleiðslu á Íslandi, eins og ég nefndi. Það er hreint út sagt ótrúlegt að ríkisstjórninni þyki það ekkert tiltökumál að veita ekki íslenskum landbúnaði og íslenskum matvælaiðnaði eða matvælafyrirtækjum nokkurt svigrúm til að aðlagast því nýja samkeppnisumhverfi.

Miðflokkurinn telur þennan tollasamning vondan. Við viljum segja honum upp, eins og ég kom inn á áðan. Það er afar mikilvægt að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu. Hún á undir högg að sækja. Landbúnaður er okkur mjög mikilvægur, tryggir okkur matvælaöryggi, veitir fjölda fólks störf víða um land, á landsbyggðinni, og við viljum sjá allt landið í byggð. Þetta er hluti af því að landið sé í byggð, að hér ríki öflugur landbúnaður.

Frú forseti. Miðflokkurinn getur ekki staðið að afgreiðslu málsins í heild sinni eins og það er sett fram.