148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

tollalög.

581. mál
[00:13]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það hefur verið nokkuð merkilegt að fylgjast með þessu máli. Í ræðum sínum hafa stjórnarliðar farið svolítið aftur í tímann og talað um samninga við Evrópusambandið sem gerðir voru fyrir einhverjum árum og verkefni eða verkefnaleysi ráðherra á tilteknum tíma. Menn hafa rifjað það upp að þegar núverandi landbúnaðarráðherra kom í ráðuneyti sitt hafi þar vart staðið steinn yfir steini í því að standa við búvörusamninginn. Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði, ef ég tók rétt eftir, að hann hefði verið settur í að fara yfir þetta og hefði komist að því í febrúar sl. að ekkert hefði verið unnið í þeim málum sem áttu að koma til móts við sjónarmið bænda.

Það hefur verið farið ítarlega yfir allar tímalínur í málinu en mig langar til að fara yfir aðra tímalínu, tímalínu þessa máls hér í þinginu. Þann 8. maí var frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagt fram á Alþingi. Þá var gert ráð fyrir því að þessi innflutningur yrði leyfður í einu lagi. (Gripið fram í.) Jæja, síðan gerist það að frumvarpið er í nefnd og nefndarálit lagt fram 11. júní. Nú er víst komið fram yfir miðnætti þannig að það var ekki í gær heldur í fyrradag. Það er með þeirri breytingartillögu, eftir umræður í nefndinni og sáttamiðlun hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, að gera þetta á tveimur árum í stað eins. Menn sættu sig við það. Síðan kemur að gærdeginum, þ.e. núna í kvöld. Þá kemur allt í einu fram nýtt nefndarálit með breytingartillögu þar sem allt heila klabbið er tekið til baka. Hverjar eru röksemdirnar fyrir því? Þær að ekki hafi verið staðið við einhverja hluti í fortíðinni, hluti sem öllum stjórnarliðum, a.m.k. hæstv. landbúnaðarráðherra og formanni hv. efnahags- og viðskiptanefndar, voru ljósir og hv. þingmönnum sem sitja í atvinnuveganefnd. Allt var þetta kýrskýrt.

Síðan gerist það í dag að menn vilja draga þetta allt saman til baka. Þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja sig: Fengu menn vitrun í gær um öll þessi sviknu loforð og allan þann vanda sem myndi steðja að bændum ef málið færi fram eins og var í fyrsta lagi lagt fram af hæstv. ráðherra og síðan af meiri hluti nefndarinnar í fyrradag? Hvað gerðist? Hvaða vitrun fengu menn? Voru menn í blakkáti? Hvaða nýju upplýsingar komu fram?

Ég á mjög erfitt með að skilja þetta, ég verð að segja það alveg hreint eins og það er. Af hverju í ósköpunum datt hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í hug að flytja þetta frumvarp yfir höfuð í ljósi þess sem menn tala núna um af miklum fjálgleika? Hvernig í ósköpunum datt meiri hluta atvinnuveganefndar í hug að flytja nefndarálit með breytingartillögu í gær þegar hann vissi allt þetta? Og hvernig datt mönnum þetta í hug núna fyrst? Rann upp fyrir þeim ljós, fengu þeir vitrun? Ég botna ekkert í þessu. Vegir þessarar hæstv. ríkisstjórnar eru mér (Forseti hringir.) mjög torskildir, en ég er ekkert nema dauðlegur maður og kannski eru mjög eðlilegar skýringar á svona vinnubrögðum. En ég skil þetta ekki.