148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

þingfrestun.

[00:25]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Háttvirtir alþingismenn. Störfum þessa þings lýkur nú að sinni. Þetta hefur verið fremur stutt þing. Við komum ekki saman hér fyrr en 14. desember, að loknum alþingiskosningum, þremur mánuðum síðar en reglulegt þinghald hefst venjulega, og gerðum þar í viðbót rúmlega hálfs mánaðar hlé vegna sveitarstjórnarkosninga.

Eins og við er að búast hafa störf þingsins mótast af þessum aðstæðum. Ríkisstjórnin hafði skemmri tíma til að undirbúa mál fyrir Alþingi en ella hefði verið. Þingmálaskrá ríkisstjórnar sem lögð var fram í upphafi þings var því í reynd yfirlit yfir mál sem voru í vinnslu og kynnu að koma fyrir þingið fremur en raunhæfur verkefnalisti.

Þessar aðstæður hafa líka sýnt betur en annað að bæta þarf samskipti ríkisstjórnar og Alþingis við framlagningu stjórnarmála. Forsætisnefnd og formenn þingflokka áttu um þetta efni gagnlegan fund með forsætisráðherra um miðjan apríl sl. Ljóst er að einkum tvennt brennur á þingmönnum í þessum efnum. Hið fyrra er að breyta þarf vinnsluferli mála innan Stjórnarráðsins og aðgreina endurflutt þingmál og ný mál. Þannig má tryggja að endurfluttu málin komi fram snemma á haustþingi en dragist ekki fram undir lokafresti fyrir jól eða að vori. Í annan stað hafa verið uppi óskir um að þingmálaskrá ríkisstjórnar væri uppfærð reglulega á vef Stjórnarráðsins og þess gætt að hún væri raunhæf lýsing á vinnslustöðu mála. Það myndi auka fyrirsjáanleika í skipulagningu þinghaldsins en eftir slíku er mjög kallað af hálfu þingmanna. Þeir vilja eðlilega geta skipulagt tíma sinn betur en nú er hægt. Hæstv. forsætisráðherra hefur tekið vel í þessar ábendingar og bind ég því vonir við að sjá breytingar í þessum efnum á næsta þingi.

Skipulag þingstarfanna og starfshætti hér á Alþingi þarf einnig að taka til endurskoðunar, m.a. í því skyni að auka fyrirsjáanleika í störfum þingsins. Um það eru allir þingflokkar sammála. Niðurstaðan varð því sú í mars sl. að koma á fót vinnuhópi til að sinna þessum málum og er hann auk forseta skipaður einum fulltrúa frá stjórnarliðum og öðrum frá stjórnarandstöðu. Hópurinn hefur þegar komið saman til skrafs og ráðagerða en vegna anna í þingstörfum hefur honum ekki tekist að ljúka störfum. Engu að síður tel ég að þegar hafi komið fram, bæði í umræðum við formenn þingflokka og í vinnuhópnum, ýmsar góðar hugmyndir sem mikilvægt er að vinna frekar úr. Ég hef einsett mér að þetta starf haldi áfram á haustþinginu. Vissum hlutum hefur þegar verið hrint í framkvæmd, eins og t.d. að senda formönnum allra þingflokka í lok hverrar viku dagskrá þess mánudags sem í hönd fer og drög að fundahaldi út næstu viku.

Ég tel að það hafi verið mikilvægur áfangi þegar Alþingi samþykkti siðareglur fyrir alþingismenn fyrir rúmum tveimur árum. En siðareglur eiga að vera lifandi plagg og ég vil því lýsa ánægju minni með þær breytingar á siðareglum sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum dögum. Í þeim breytingum felast skýr og afdráttarlaus viðbrögð þingmanna við þeim opinskáu umræðum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi og þar á meðal innan stjórnmálanna. Með breytingunum eru tekin af öll tvímæli um að þingmenn muni leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan sem utan þings og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum og að kynbundin áreitni verði ekki liðin, hvað þá ofbeldi.

Ég tel að þær opinskáu umræður sem urðu á rakarastofumálþingi sem við héldum í Alþingishúsinu í febrúar sl. um ofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna hafi sýnt að alþingismenn láta sig þessi málefni miklu varða.

Á þessu ári höfum við Íslendingar fagnað því með margvíslegum hætti um land allt að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Alþingi mun af þessu tilefni koma saman til hátíðarfundar á Þingvöllum 18. júlí nk., en þann dag fyrir einni öld var samningnum um fullveldi Íslands lokið og hann undirritaður hér í þessu húsi.

Þingfundurinn verður undir berum himni líkt og áður þegar Alþingi hefur komið saman á Þingvöllum á hátíða- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Stefnt er að því að hafa alla umgjörð þingfundarins þennan dag hóflega og látlausa. Bein sjónvarpsútsending verður frá þingfundinum og öllum landsmönnum gefst þannig kostur á að fylgjast með athöfninni. Við undirbúning hátíðarfundarins hefur skrifstofa Alþingis átt mjög gott samstarf við fjölmarga aðila, eins og Framkvæmdasýslu ríkisins, embætti ríkislögreglustjóra og ýmis lögregluembætti, Vegagerðina, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Þingvallanefnd, Ríkisútvarpið og ýmsa aðila innan Stjórnarráðsins.

Miðað er við að daginn fyrir Þingvallafundinn, þ.e. 17. júlí, komi Alþingi saman í Alþingishúsinu til að fjalla um og undirbúa lokaafgreiðslu þeirra mála eða þess máls sem á að fá endanlega samþykkt á Þingvöllum af þessu tilefni. Bið ég þingmenn að hafa þetta í huga og þá jafnframt að þingflokkar kunna að þurfa að koma saman fyrr vegna þessa máls. Það er einlæg ósk mín að forystumenn stjórnmálaflokkanna nái samstöðu um mál sem tekið verður fyrir á hátíðarfundinum.

Fleiri atburðir fylgja svo í kjölfar Þingvallafundarins í tilefni afmælisársins. Þannig munu Danir standa fyrir mikilli dagskrá í fyrri hluta október í Kaupmannahöfn. Þá stendur ríkisstjórnin fyrir hátíðahöldum 1. desember nk., þann dag sem sambandslögin milli Dana og Íslendinga tóku gildi.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og vekja athygli hv. alþingismanna á einum þremur atburðum á haustmánuðum sem ástæða er að hvetja þá til þátttöku í:

Það er fyrst lýðræðis- og almenningsstefnumótið „Lýsa“ sem haldið verður á Akureyri dagana 7.–8. september. Hér er um norræna hefð að ræða sem vonandi nær einnig að festa sig í sessi á Íslandi, eins konar stefnumót grasrótarhreyfinga, almannasamtaka, stjórnmálamanna, fræðasamfélagsins o.s.frv. Þessi atburður fer nú fram á Akureyri í annað sinn en var áður haldinn í og við Norræna húsið í tvígang.

Í öðru lagi er það Hringborð norðurslóða sem haldið verður í Hörpu dagana 19.–21. október en þar hefur undanfarin ár verið að myndast stærsti og fjölsóttasti vettvangur umræðna um norðurslóðamál í heiminum.

Og að síðustu vil ég minna á ráðstefnu kvenleiðtoga í stjórnmálum sem Ísland hefur nú tekið að sér að hýsa sem gestgjafi, a.m.k. næstu fjögur árin. Sú ráðstefna verður nú haldin hér í annað sinn undir lok nóvember.

Ég vil að lokum geta þess lokahönnun skrifstofubyggingarinnar hér á reitnum er að hefjast og bind ég vonir við að jarðvegsframkvæmdir geti hafist á þessu ári. Þessi nýja bygging mun hafa í för með sér gríðarlega breytingu á starfsaðstöðu þingmanna og starfsmanna, nefndanna og raunar þingsins alls. Þegar við bætast þeir fjármunir sem nú hafa verið tryggðir í fjárlögum yfirstandandi árs og í nýsamþykktri fjármálaáætlun til næstu fimm ára til að efla nefndasvið Alþingis og aðra stoðþjónustu, bæta afkomu þingflokka og auka aðstoð við þingmenn tel ég alla ástæða til að horfa bjartsýnn fram á veginn fyrir hönd Alþingis.

Við lok þinghaldsins vil ég þakka öllum alþingismönnum fyrir samstarfið. Eðlilega greinir þingmenn á um ýmis mál, en hér á Alþingi hefur almennt ríkt góður andi og ríkur samstarfsvilji og vil ég þakka fyrir það. Þá hefur þetta þing, þótt stutt sé, afkastað miklu og leitt mörg stór mál til lykta með farsælum hætti. Alls 84 frumvörp hafa orðið að lögum og þingið hefur samþykkt 29 ályktanir.

Ég færi varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum flokkanna og þingflokka fyrir mjög gott samstarf. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég góða aðstoð og mjög mikið og gott starf og samvinnu í hvívetna þar sem mikið hefur mætt á, ekki síst nú síðustu dagana.

Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil þegar Alþingi kemur saman að nýju í næsta mánuði.