148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

þingfrestun.

[00:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja hæstv. forseta og varaforsetum kærar þakkir fyrir samstarfið í vetur og hlý orð í garð okkar þingmanna. Ekki síst vil ég þakka hæstv. forseta samstarfið við okkur þingflokksformenn. Þó að stöku sinnum hafi hvesst hressilega á fundum okkar hefur hvellurinn aldrei staðið of lengi. Reynsla og þekking forseta á þingstörfum hefur komið sér vel.

Ég vil einnig fyrir hönd alþingismanna þakka starfsfólki Alþingis fyrir góð störf og fúslega veitta aðstoð. Starfsfólk Alþingis sýnir okkur alþingismönnum lipurð, þolinmæði og ljúfmannlega framkomu og er ávallt viljugt að leita lausna og aðstoða í hvívetna og fyrir það erum við afar þakklát.

Í stjórnmálum er tekist á og síðasti áratugur hefur verið stormasamur. Við viljum öll að traust almennings á Alþingi aukist og vonum að með störfum okkar náist að vinna það traust sem nauðsynlegt er til að skapa sem mesta sátt í samfélaginu. Við tökumst á í þessum sal því að vonir og væntingar fara ekki saman, áherslur og leiðir sem við viljum fara í stórum málum sem smáum eru ólíkar. Sáttfýsi og greiðar samskiptaleiðir skipta miklu máli í vinnu okkar fyrir þjóðina. Þeim leiðum verðum við ávallt að halda opnum.

Ég ítreka þakkir okkar til hæstv. forseta og starfsfólks Alþingis og bið þingmenn að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]