148. löggjafarþing — 79. fundur,  13. júní 2018.

þingfrestun.

[00:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Að ég, að tilskildu samþykki Alþingis, veiti forsætisráðherra umboð til þess að fresta fundum Alþingis, 148. löggjafarþings, frá 12. júní 2018 eða síðar, ef nauðsyn krefur, til 17. júlí 2018.

Gjört í Reykjavík, 11. júní 2018.

Guðni Th. Jóhannesson.

________________

Katrín Jakobsdóttir.

 

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.“

 

Samkvæmt þessu umboði og með vísan til samþykkis Alþingis lýsi ég yfir því að fundum Alþingis, 148. löggjafarþings, er frestað.

Ég þakka starfsmönnum Alþingis einkar gott og farsælt samstarf og þakka alþingismönnum gefandi samskipti á þessu þingi. Eins og fram kemur í því forsetabréfi sem ég hef hér lesið upp mun Alþingi koma saman til framhaldsfunda 17. júlí nk. og þann 18. júlí, eins og kom fram í máli forseta, verður haldinn hátíðarþingfundur í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins þar sem við munum koma saman og ekki aðeins minnast þess hvað fullveldið hefur fært okkur heldur líka hvað framtíðin getur fært okkur sem fullvalda þjóð.

Ég óska þingmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.