148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:34]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Í tilefni af því að Alþingi kemur nú saman til sérstakra fundahalda á miðju sumri vil ég bjóða hv. alþingismenn velkomna til starfa. Þingfundirnir í dag eru til undirbúnings fyrir hátíðarfund Alþingis sem verður að Lögbergi við Öxará á Þingvöllum á morgun í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að sambandslagasáttmálinn var undirritaður þann 18. júlí 1918 hér í Alþingishúsinu.

Ég hef á fundum með formönnum þingflokka og í forsætisnefnd í morgun farið yfir fyrirkomulag þinghaldsins og er um það gott samkomulag og þau mál sem eru á dagskrá af þessu tilefni. Forseti áætlar því að þingfundur standi ekki mjög lengi í dag, eða eitthvað fram á fjórða tímann.