Bráðabirgðaútgáfa.

148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

verkefni í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands í þágu barna og ungmenna og rannsókna er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

675. mál
[13:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Íslenska þjóðin stendur nú á merkum tímamótum og það er við hæfi að minnast þess með góðum verkum sem skipta máli fyrir framtíð okkar sem þjóðar. Það er ekkert launungarmál að við í Samfylkingunni hefðum helst af öllu kosið að á þessum merku tímamótum gæti þjóðin fagnað nýrri stjórnarskrá, að drög stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefðu verið fullunnin og samþykkt á 100 ára fullveldisafmælinu. En svo er ekki og það eru mér mikil vonbrigði.

Þær gjafir sem formenn stjórnmálaflokkanna á þingi hafa komið sér saman um að gera tillögu um eru að sönnu góðar en þó aðallega bæði tímabærar og hagnýtar. Myndarlegur barnamenningarsjóður með víðtækt hlutverk sem hvetur öll börn til lýðræðisþátttöku er mikilvægur; sjóður sem hvetur til listsköpunar og að börn njóti lista og menningar er einkar viðeigandi gjöf. Börnin eru framtíðin og að þeim eigum við að hlúa vel alla daga en þessi tímamót gefa okkur tilefni til að gera enn betur á því sviði.

Smíði hafrannsóknaskips er einnig mikilvæg og tímabær gjöf. Hún talar til sögu þjóðarinnar og til lífsviðurværis um aldirnar en þó enn frekar til framtíðar með rannsóknum sem þjóðin getur lært af og lagt af mörkum í samfélagi þjóðanna. Loftslagsváin spyr ekki um landamæri. Það stendur okkur Íslendingum nærri að rannsaka áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Súrnun og hlýnun sjávar, breytt hegðun fiskstofna, hækkandi yfirborð, mengun og ofveiði eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröftugum og skýrum hætti. Við eigum að ganga vel um auðlindina okkar og við verðum að leggja okkar af mörkum í því mikilvæga máli. Til þess þarf að efla rannsóknir og skapa góðar aðstæður til rannsókna.

Nýtt hafrannsóknaskip er okkur nauðsyn og það er okkur nauðsyn að gæta þess að börnin okkar njóti jafnt örvunar sem umhyggju og eigi þess öll kost að þroskast, skapa og njóta.